Innlent

Útilokað að smástirnið Apófis skelli á jörðinni árið 2029

Smástirnið Apófis átti sögulegt en þó örstutt ástarævintýri við Jörðina í gær. Þá skaust þessi 320 metra breiði hnullungur framhjá Jörðinni á hátt í 30 þúsund kílómetra hraða.

Apófis fannst árið 2004. Fyrstu mælingar gáfu til kynna að líkur væru á að smástirnið myndi rekast á jörðina í aðflugi sínu árið 2036. Nú, þegar vísindamenn hafa fengið tækifæri til að rannsaka steininn í návígi, er ljóst að engin hætta er á ferðum.

Síðari mælingar hafa þó leitt í ljós að Apófis mun fara framhjá jörðinni árið 2029. Það mun þó litlu muna enda verður smástirnið þá í rúmlega 30 þúsund kílómetra hæð yfir jörðu. Gervitungl sem notuð eru til fjarskipta eru í 39 þúsund kílómetra hæð.

„Jú, NASA var að birta fréttatilkynningu fyrir nokkrum klukkustundum," segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. „Þar kemur fram að niðurstöður mælinga, sem gerðar voru þegar Apófis fór framhjá okkur í gær, sýna að engar líkur eru á árekstri þegar Apófis snýr aftur árið 2036."

Þetta eru sannarlega jákvæðar fréttir. Sævar Helgi bendir á að slíkar náttúruhamfarir myndu snerta hverja einustu manneskju á jörðinni.

„Slíkur árekstur yrði 20 sinnum stærri en stærsta kjarnorkusprengja sem sprengd hefur verið á jörðinni," segir Sævar Helgi. „Þetta yrði slæmur dagur fyrir jarðarbúa."

Í myndskeiðinu hér fyrir ofan má sjá Apófis skjótast framhjá jörðinni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×