Innlent

Gæslan missir TF-GNÁ en hefur greitt 1,5 milljarða í leigu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Landhelgisgæslan hefur borgað 200 þúsund dollara á mánuði fyrir leigu á þyrlunni TF Gná. Þyrlan er í eigu norsks auðmanns og fyrir fjárhæðina sem farið hefur í leiguna samtals hefði ríkissjóður getað keypt sína eigin þyrlu.

Norðmaðurinn hefur nú leigt vélina annað og ákvað að taka ekki þátt í þyrluútboði Ríkiskaupa.

Í gær voru opnuð tilboð í leigu á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna en útboð var auglýst síðastliðið haust. Tilboð bárust frá tveimur aðilum í leigu á tveimur Super Puma þyrlum.

Ríkiskaup og Landhelgisgæslan munu fara yfir tilboðin á næstu dögum og vikum með hliðsjón af því hvort þau standist kröfur samkvæmt útboðsgögnum. Stefnt er að því að yfirferð ljúki innan fjögurra vikna.

Landhelgisgæslan hefur haft á leigu þyrluna TF-GNÁ, sem er af gerðinni Super-Puma, af félagi í eigu norska kaupsýslumannsins Knut Axel Ugland. Samningurinn við Ugland rennur út í maí 2014. Samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 greiðir Gæslan 200 þúsund dollara á mánuði fyrir leigu á þyrlunni sem hún hefur haft frá ársbyrjun 2007.

Á þessum fimm árum hefur Landhelgisgæslan greitt 12 milljónir dollara, jafnvirði 1,5 milljarða króna fyrir leigu á þyrlunni og þegar upp verður staðið verður gæslan búin að greiða 15,4 milljónir dollara í leigu, sem er einmitt nálægt kaupverði á fullútbúinni þyrlu af þessu tagi, samkvæmt athugun fréttastofunnar.

„Dýrt að vera fátækur"

Afhendingarfrestur á nýrri Super Puma þyrlu er 2-3 ár. Ríkissjóði virtist því hafa verið nauðugur sá kostur að leigja þyrluna á sínum tíma, í stað þess að bíða og vera án þyrlu af þessu tagi. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu tók Ugland ekki þátt í útboðinu að þessu sinni og hefur hann þegar leigt þyrluna sína áfram til annarra verkefna erlendis frá og með maí 2014.

Tveir íslenskir aðilar skiluðu tilboðum, en báðir eru í samstarfi við útlendinga sem eiga Super Puma þyrlur. Bæði tilboð eru hærri en núverandi samningur við Norðmanninn um TF-GNÁ kveður á um. „Það er dýrt að vera fátækur," segir embættismaður sem þekkir vel til málsins, í samtali við fréttastofu. Bæði tilboðin sem opnuð voru í gær eru vel yfir 200 þúsund dollurum á mánuði.

Af framansögðu er ljóst að það hefði margborgað sig fyrir ríkissjóð að kaupa þyrluna á sínum tíma fremur en að leigja hana. Ríkissjóður hefur hins vegar allra síst núna fjárhagslegt bolmagn til að festa kaup á Super Puma björgunarþyrlu. Skuldir ríkissjóðs nema 1.500 milljörðum króna, eða 88 prósentum af landsframleiðslu en eru 120 prósent af landsframleiðslu ef lífeyrisskuldbindingar eru teknar með. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×