Innlent

Kom í veg fyrir blóðbað með fortölum

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Sem betur fer var neminn talaður til.
Sem betur fer var neminn talaður til.
Kennari og starfsmaður menntaskóla í bænum Taft í Kaliforníu eru taldir hafa komið í veg fyrir blóðbað þegar þeir töluðu um fyrir 16 ára nemanda, sem kom vopnaður haglabyssu til skólans í gær, með það að markmiði að myrða bekkjarfélaga sína sem höfðu lagt hann í einelti.

Nemandinn var fjarverandi þegar skóladagurinn hófst í gær en kom síðar inn í skólastofu sína með látum og skaut nokkrum skotum í átt að samnemendum og hæfði einn sem liggur nú þung haldinn á sjúkrahúsi. Árásarmaðurinn kallaði þar næst á dreng sem kom við kallið úr felum. Sá baðst fyrirgefningar í tvígang áður en árásarmaðurinn miðaði á hann og skaut en hæfði ekki.

Kennari og annar starfsmaður skólans sannfærðu árásarmanninn um að leggja byssuna frá sér og á meðan tókst öðrum í bekknum, 27 nemendum, að koma sér undan. Starfsmönnunum er nú hampað sem hetjum í Bandaríkjunum.

Nemandinn, sem hefur ekki verið nafngreindur, er nú í haldi lögreglu en hann var með nóg af skotum á sér til að skaða fjölda manns. Hann er sagður hafa orðið fyrir einelti í skólanum og hafði ritað á lista nöfn nokkurra nemenda.

Þá er hann jafnframt sagður hafa ákveðið í fyrradag að myrða alla á listanum og komst í þeim tilgangi yfir byssu bróður síns. Drengurinn hafði rætt við kunningja sína um að myrða alla þá sem lögðu hann í einelti og í fyrra bjó hann til lista yfir nemendur sem hann vildi skjóta. Skólayfirvöldum var gert viðvart á sínum tíma og hafa þau verið harðlega gagnrýnd fyrir að aðhafast ekkert í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×