Innlent

Árni Hjörvar keppir við Coldplay og Rolling Stones um Brit Award

Árni Hjörvar Árnason á góðri leið í tónlistarbransanum.
Árni Hjörvar Árnason á góðri leið í tónlistarbransanum.
Árni Hjörvar Árnason bassaleikari í bresku hljómsveitinni, The Vaccines, er ásamt félögum sínum tilnefndur til Brit Award verðlaunanna í flokknum Live Act, sem er flokkur yfir lifandi flutning hljómsveita.

Og það eru engin smástirni sem þeir keppa við því aðrir sem eru tilnefndir í sama flokki eru hljómsveitirnar Coldplay, Mumford &Sons, Muse og blúskóngarnir í The Rolling Stones. Allar hljómsveitirnar eru frægar fyrir tilkomumikið tónleikahald.

Árni Hjörvar flutti til Bretlands fyrir fimm árum síðan, en The Vaccines var stofnuð fyrir um tveimur árum síðan. Hljómsveitin vakti strax talsverða athygli í Bretlandi eftir að þeir sendu frá sér fyrstu smáskífuna sem heitir, Wreckin' Bar (Ra Ra Ra)/Blow it Up. Skífan náði þá 157. sæti breska smáskífulistans.

Í byrjun árs 2011 komst svo hljómsveitin The Vaccines í þriðja sætið á lista breska ríkisútvarpsins BBC yfir heitustu hljómsveitir ársins 2011.

BBC birtir listann árlega, en hann er settur saman af 160 gagnrýnendum, tónlistarbloggurum og fjölmiðlamönnum. Á meðal hljómsveita sem komust á listann áður en þær slógu í gegn eru MGMT, Kaiser Chiefs, Vampire Weekend og Klaxons.

Þá komust listamenn á borð við Lady Gaga, Duffy og Mika á listann áður en þau urðu alþjóðlegar ofurstjörnur.

Verðlaunin fara fram í O2 höllinni í London 20. febrúar næstkomandi en hægt er að nálgast tilnefningarnar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×