Innlent

Yndislega eyjan mín - Minning um mann í nýjum búningi

Myndband við lagið Minning um mann hefur verið birt á veraldarvefnum. Er þetta gert í tilefni af Eyjatónleikunum sem haldnir verða í Eldborgarsal Hörpu þann 26. Janúar næstkomandi. Þá munu Eyjamenn og landsmenn allir minnast þess að fjörutíu ár eru liðin frá Heimaeyjargosinu sem hófst þann 23. Janúar árið 1973.

Bjarni Ólafur Guðmundsson, hjá útgáfufélaginu Höllinni í Vestmannaeyjum, segir að þessi dagsetning snerti streng í hjörtum allra Eyjamanna. „Þennan dag varð líka til strengur sem batt þá saman og til varð einhver mesta samstaða í allri Íslandssögunni."

„Eyjamenn hafa ekki verið mikið fyrir að halda upp á þennan dag, vilja minnast hans eðlilega. Flestir minnast hans með söknuði og trega yfir missinum en um leið með þökk fyrir hve vel fór."

Minning um mann, sem samið var af Gylfa Ægissyni, er landsmönnum kunnugt. Það var fyrir tæpum 40 árum sem lagasmiðurinn söng lagið inn á kassettu og afhenti peyjunum í Logum til skoðunar. Þeim leist vel á.

Lagið kom út en í því Óli Back: „...sem að þráði brennivín úr stæk." Ekki voru allir með það áhreinu var stækur var og umræðan var það mikil að orðabók Háskólans skar úr um málið. Hún komst að því að stækur væri drykkjarílát.

Hins vegar var Gylfi ekkert að syngja um stæk. Að eigin sögn var hann bæði fullur og tannlaus þegar hann söng inn á kassettuna og var því svona óskýr. „Þetta átti víst að vera: „sem þráðir brennivín og sæ."

Hægt er að nálgast lagið á Tónlist.is en myndbandið má sjá hér fyrir ofan. Hægt er að nálgast allar upplýsingar um Eyjatónleikana í Hörpu hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×