Innlent

Jón Ásgeir fjárfestir fyrir hundruð milljóna á Bretlandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson hefur keypt hlut í fyrirtækinu Muddy Boots Real Foods. Þetta er fullyrt á vef breska blaðsins Sunday Telegraph. Þar segir að Jón Ásgeir hafi keypt um fjórðungshlut í fyrirtækinu og að fjárfestingin nemi nokkrum milljónum sterlingspunda, eða nokkur hundruð milljónum íslenskra króna.

Blaðið segir að um sé að ræða fyrstu fjárfestingu Jóns Ásgeirs síðan að fjárfestingafélagið Baugur fór í þrot árið 2009. Blaðið segir að Jón Ásgeir hafi fjárfest í Muddy Boots í gegnum JMS Partners, sem Jón Ásgeir eigi með Gunnari Sigurðssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Baugs. Muddy Boots var stofnað af breskum hjónunum, Miröndu og Roland Ballard, árið 2008. Þau byrjuðu rekstur sinn á því að selja heimagerða hamborgara sem voru seldir á bændamörkuðum. Fljótlega fór reksturinn að vinda upp á sig og nú var svo komið að þau þurftu aukið hlutafé inn í fyrirtækið.

Roland staðfesti kaup Jóns Ásgeirs í fyrirtækinu í samtali við Telegraph. Hann segir að fjögur fyrirtæki hafi lýst yfir áhuga á að fjárfesta í því en Jón hafi verið besti kosturinn. Hann sé hugaður maður og með reynslu úr smásöluverslun. Jón Ásgeir neitaði hins vegar að tjá sig þegar blaðið hafði samband við hann.

Jón Ásgeir var umsvifamikill í smásöluverslun á Bretlandi fyrir bankahrun þegar hann rak Baug. Baugur átti þá hlut í frægum verslunum á borð við Hamleys, House of Fraser og Iceland Foods.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×