Innlent

Björn mun ekki nýta sér ákvæði um framlengingu uppsagnarfrests - "viljum ekki auka á óvissuna“

Uppsagnir hjúkrunarfræðinga við Landspítala taka í gildi þann 1. mars næstkomandi. Hátt í 20 prósent hjúkrunarfræðinga á spítalanum hafa sagt upp störfum. Björn Zoega, forstjóri Landspítalans, segist ekki ætla að nýta sér heimild um framlengingu uppsagnarfrests.

„Við viljum ekki auka á óvissuna. Við viljum leysa þetta mál sem fyrst og sem best," sagði Björn í samtali við Sigurjón M. Egilsson í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

Björn bendir á að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Landspítalinn þarf að takast á við breytingar á starfsliði sínu. „Bæði fyrir og eftir hrun var hreyfing á starfsliði okkar. Þetta er háskólasjúkrahús. Fólk fer erlendis til að mennta sig eða sækist eftir frekari sérhæfingu hjá okkur."

Þá bendir Björn á að Landspítalinn sé afar gott sjúkrahús og að það sé í raun kraftaverk að starf hans sé jafn sterkt og raun ber vitni þegar litið er til niðurskurðar.

„Það er í raun ótrúlegt að við höfum náð að halda sjó. Við skulum ekki gleyma því að þegar við lendum í þessari kreppu þá þurfum við að skera mjög mikið niður, í raun meira en aðrar ríkisstofnanir, einmitt af því að við kaupum mikið inn af vörum beint frá útlöndum."

„Árið 2012 vorum við að reka spítalann fyrir átta og níu milljarða lægri upphæð en árið 2007. Það er enginn samanburður í þessum efnum. Þegar við tölum við önnur sjúkrahús á norðurlöndunum þá voru menn að berjast við að skera niður um 1 til 3 prósent. Þetta er auðvitað ótrúlegt þegar litið er til þess að höfum verið að skera niður um 23 prósent."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×