Innlent

Þetta er líklegast alvarlegasta ógnin við framtíðarhagsmuni þessarar þjóðar

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Formaður Landverndar segir atvinnuvegaráðherra hafa afvegaleitt umræðuna um olíuleit og vinnslu á Drekasvæðinu, ákvarðanir um að leyfa mögulegar boranir verða ekki teknar í framtíðinni líkt og ráðherrann hefur sagt því þær hafa þegar verið teknar.

Orkustofnun gaf á föstudag út fyrstu leyfi fyrir olíuleit á Drekasvæðinu en forsvarsmenn fyrirtækjanna sem standa að leitinni segja raunhæft að áætla að hún geti hafist innan þriggja til fjögurra ára og hægt verði að byrja að dæla upp olíu innan átta ára. Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra segir þetta þó ekki þýða að Ísland sé orðið að olíu eða gasvinnsluríki.

„Ákvarðanir um slíkt liggja langt inni í framtíðinni þar með talið það hvort og þá hvenær menn tækju afstöðu til þess og leyfðu mögulegar boranir," segir Steingrímur.

Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, gagnrýnir þessi orð Steingríms og segir hann vera að afvegaleiða umræðuna.

„Með því að halda því fram að þarna sé ekki verið að taka ákvörðun um olíuvinnslu. Þetta er ákvörðun um olíuvinnslu, samningur er um olíuleit og olíuvinnslu þannig að það verður ekkert snúið til baka ef olía finnst þarna á annað borð. Ég myndi þá ímynda mér að það myndi kosta kynslóðir framtíðarinnar miklar skaðabætur ef það ætti að segja nei þá," segir hann.

Guðmundur segir það áhyggjuefni hversu lítið hafi farið fyrir þessari umræðunni.

„Samfélagið hefur í rauninni ekki verið spurt á nokkurn hátt, það hefur aldrei verið kosið um þetta og þetta hefur ekki farið hátt í sölum Alþingis."

Og hann segist skynja áhugaleysi á málinu meðal margra þingmanna.

„Þrátt fyrir þá alvarlegu stöðu sem stöndum frammi fyrir í loftlagsmálum. Þetta er mjög alvarlegt mál og líklegast alvarlegasta ógnin við framtíðarhagsmuni þessarar þjóðar," segir Guðmundur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×