Innlent

Hagstæð vindátt kom í veg fyrir stórslys á Sauðárkróki

Viggó Jónsson og Höskuldur Kári Schram skrifar
Mikil hætta skapaðist á Sauðárkróki í nótt þegar mörg þúsund lítrar af saltsýru láku úr stórum gámageymi á hafnarsvæði bæjarins. Hagstæð vindátt kom í veg fyrir stórslys.

Það voru vegfarendur sem gerður slökkviliðinu viðvart um klukkan eitt í nótt eftir að þeir tóku eftir torkennilegri gufu frá gáminum.

„Til að byrja með lokuðum við svæðinu og sendum síðan tvö hópa af reykköfurum inn í sérstökum búningum til að kanna aðstæður, sjá hver lekinn væri og kannar hvernig væri best að stöðva hann. Þá kom í ljós að það lak úr botninum á þessum tanki og virtist um tæringu að ræða," segir Vernharð Guðnason, slökkviliðsstjóri.

Talið er að þrjú til fimm þúsund lítrar af saltsýru hafi lekið út en alls voru um átján þúsund lítrar í gáminum. Efnið átti að flytja til Siglufjarðar til efnaúrvinnslu úr rækjuskel. Saltsýra er ætandi efni og afar hættulegt. Hagstæð vindátt bægði hins vegar eiturgufum frá bænum.

„Við erum heppnir með vindátt því vind leggur frá bryggjunni og út á sjó. En þetta er hættulegt efni, bæði uppgufun þess og efnið sjálft ef það lendir á húð eða öðru."

Vítisóti var notaður til að gera saltsýruna óvirka.

„Við þurfum mikið fa öðru efni til að ná sýrustiginu niður. Við notum síðan vatn til að skola þessu í burtu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×