Innlent

Ólafur Darri heldur til Hollywood

Jakob Bjarnar skrifar
Ólafur Darri verður í einu aðalhlutverka sjónvarpsþáttarins Line of Sight hjá kapalstöðinni AMC.
Ólafur Darri verður í einu aðalhlutverka sjónvarpsþáttarins Line of Sight hjá kapalstöðinni AMC.
Vegur Ólafs Darra Ólafssonar leikara fer nú vaxandi vestan hafs og eftir hálfan mánuð heldur hann utan til Bandaríkjanna þar sem hann mun leika í sjónvarpsþætti sem bundnar eru vonir við.

Ólafur Darri verður í forgrunni sjónvarpsþáttarins Line of Sight hjá kapalstöðinni AMC sem á meðal annars heiðurinn á þáttunum Breaking Bad og Mad Men. Stórlaxar á borð við Jonathan Demme, leikstjóri Silence of the Lambs, er einn þeirra sem kemur að gerð þáttanna sem fjalla um Lewis Bernt, sem David Morrissey leikur, sem lifir af dularfullt flugslys. Hann leggur í kjölfarið upp í rannsóknarleiðangur þar sem hann reynir að komast að tildrögum slyssins og þar kemur að Ólafi Darra sem leikur Edgar, ósveigjanlegum og voldugum manni sem virðist vita ýmislegt um slysið.

Fullyrða má að þarna er Ólafur Darri kominn í hóp þeirra íslenskra leikara sem mestum frama hafa náð á erlendri grundu. Ólafur Darri er sjálfur hógværðin uppmáluð þegar hann er spurður hvort þarna sé ekki um risastökk að ræða á framabrautinni?

„Þetta er náttúrlega bara... maður má ekki gleyma því, þetta er náttúrlega bara „pilot“ eða prufuþáttur. Allir sem koma nálægt þessu vona náttúrlega að hann fari í framleiðslu og gerðar verði tíu þáttaraðir. Maður byrjar á einum þætti og má kannski ekki fara framúr sér. En, þetta verður svakalega gaman að gera. Flottur leikstjóri og flottur höfundur; sá sami og skrifaði 2 Guns fyrir Balta.“

Ólafur Darri vill lítið tjá sig um hlutverkið sjálft. „Ahhh, nú vil ég ekkert segja um það. Eða, ég get sagt að það sé veigamikið að því leyti að mér er treyst til að vera með í að minnsta kosti meira en helmingi þáttanna sem framleiddir verða á þessu ári ... til að byrja með," segir Ólafur Darri.

Hann gefur lítið fyrir að nú sé hann kominn á þann stað að teljast rík "filmstjarna" en hugsanlega getur þetta orðið til að grynnka á skuldum sem safnast hafa upp við það að vera fátækur listamaður á Íslandi árum saman. Annað á döfinni hjá Ólafi Darra er að leika í Hamlet í Borgarleikhúsinu og Óförum, sjónvarpsþáttum sem Baltasar Kormákur og Sigurjón Kjartansson eru að skrifa um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×