Innlent

„Þingflokkurinn vill ekki að ég starfi fyrir sig“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Bjarnason fyrrverandi ráðherra hefur sagt skilið við þingflokk Vinstri grænna. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrsti varaforseti Alþingis, las upp yfirlýsingu frá Jóni í upphafi þingstarfa í dag.

Jón sagði í viðtali við Heimi Má Pétursson í fréttum á Bylgjunni síðdegis í dag að reynt hefði á samstarf hans við þingflokkinn.

„Þingflokkurinn krafðist þess að ég viki úr utanríkismálanefnd vegna afstöðu minnar og baráttu gegn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Þingflokkur sem vill ekki hafa mig í stærstu málum flokksins, grunnstefna flokksins er að við skulum ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu, og þá eigum við bara ekki samleið," sagði Jón í viðtalinu.

Þrátt fyrir að Jón hafi sagt sig úr þingflokknum mun hann áfram starfa innan stjórnmálaflokksins. Hann hefur ekki yfirgefið hryefinguna.

„Nei, alls ekki. Grunnstefna Vinstri grænna er sú sem ég hef staðið á, hef starfað eftir og verið kosin til. Það er óbreytt. Þingflokkurinn, sem ekki vill að ég starfi fyrir sig, þá er það bara svo. Þar er ágreiningur."

Aðspurður hvort Jón muni áfram greiða atkvæði með málum ríkisstjórnarinnar sagði þingmaðurinn:

„Ég hef sagt það áður að ég muni greiða atkvæði með góðum málum sem mér finnst ástæða til að styðja við," segir Jón.

Fjórir þingmenn Vinstri grænna og einn þingmaður Samfylkingarinnar hafa sagt skilið við ríkisstjórnina á kjörtímabilinu. Þingmennirnir eru Ásmundur Einar Daðason, Atli Gíslason, Lilja Mósesdóttir og Jón Bjarnason frá Vinstri grænum og Róbert Marshall frá Samfylkingunni.

Stjórnarflokkarnir eru því með 30 þingmenn í dag en lágmarksmeirihluti á Alþingi eru 32 þingmenn. Þeir Róbert og Guðmundur steingrímsson, sem sagði sig úr þingflokki Framsóknarflokksins á kjörtímabilinu og gekk til liðs við þingflokkinn Bjarta framtíð, hafa hins vegar lýst því yfir að þeir muni verja stjórnina falli komi fram vantrauststillaga.

Þá er vert að rifja upp að Þráinn Bertelsson sagði sig snemma á kjörtímabilinu úr þingflokki Borgarahreyfingarinnar og gekk í þingflokk Vinstri grænna. Þingflokkur Borgarahreyfingarinnar sagði sig frá stjórnmálasamtökunum sem þeir buðu sig fram fyrir og urðu Hreyfingin. Sjaldan eða aldrei hefur verið önnur eins hreyfing á þingmönnum á einu kjörtímabili.


Tengdar fréttir

Jón Bjarnason segir skilið við þingflokk VG

Jón Bjarnason þingmaður hefur sagt sig úr þingflokki VG. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, varaforseti Alþingis, las bréf frá Jóni þessa efnis upp við upphaf þingfundar í dag. Jón hefur verið þingmaður flokksins frá árinu 1999, þegar flokkurinn fékk fyrst kjörna þingmenn á Alþingi. Jón tilkynnti á dögunum að hann ætlaði ekki að bjóða sig aftur fram fyrir flokkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×