Innlent

Ekkert samráð haft við fagstéttir á Landspítala

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Ekki hefur verið rætt við hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á Landspítalanum um að þessar stéttir fari að styðja við störf lækna á lyflækningasviði sjúkrahússins umfram það sem nú er.
Ekki hefur verið rætt við hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á Landspítalanum um að þessar stéttir fari að styðja við störf lækna á lyflækningasviði sjúkrahússins umfram það sem nú er. Fréttablaðið/GVA
„Það hefur ekki verið rætt við okkur um að taka á okkur aukna vinnuskyldu. Við erum ekki tilbúin til þess nema við fáum hærri laun,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Í svipaðan streng tekur Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Félags íslenskra sjúkraliða.

Í yfirlýsingu heilbrigðisráðherra og forstjóra Landspítala Háskólasjúkrahúss frá því í síðustu viku um aðgerðir til að bæta stöðu lyflækningasviðs Landspítala kemur fram að skipa eigi starfshóp sem á að gera tillögur um hvernig eigi að láta meðal annars hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða styðja við störf lækna. Tillögur þar að lútandi eiga að liggja fyrir í lok nóvember á þessu ári.

Kristín á. Guðmundsdóttir og Ólafur G. Skúlason
Ólafur og Kristín segja að áður en yfirlýsingin var send út hafi ekki verið haft neitt samráð við Félag hjúkrunarfræðinga eða Sjúkraliðafélag Íslands. Ólafur segir að hjúkrunarfræðingar telji að kominn sé tími til að endurskipuleggja verksvið allra heilbrigðisstétta svo sú þekking, menntun og færni sem hver stétt býr yfir nýtist til fullnustu. Hjúkrunarfræðingar séu reiðubúnir að vinna að endurskipulagningu, hins vegar sé gríðarlegt álag á hjúkrunarfræðingum í dag og það gangi ekki að þeir bæti á sig verkefnum bótalaust.

Kristín segist fagna umræðu um endurskoðun á störfum heilbrigðisstétta. Það sé löngu tímabært að endurskoða starfssvið allra heilbrigðisstétta. Menntun sjúkraliða sé bæði vanmetin og vannýtt á Landspítalanum og fleiri sjúkrastofnunum.

Hjúkrunarfræðingar séu oft og tíðum að vinna störf sjúkraliða og því þurfi að breyta. Að lokinni endurskoðun á starfsskyldum sé komið að því að því að ræða um hvernig eigi að greiða fyrir störf sjúkraliða. Kjarasamningar verði lausir fljótlega eftir áramót og kröfugerð sjúkraliða muni að hluta til byggjast á því hvernig störf þeirra verða skilgreind og metin.

„Laun sjúkraliða eru allt of lág í dag en verði gerðar breytingar á starfssviði sjúkraliða ætti að opnast leið til að hækka laun þeirra,“ segir Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×