Íslenski boltinn

Hver þeirra fær gullskóinn?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Viðar Björnsson er kominn í þriðja sinn í færi við Gullskóinn í lokaumferðinni. Hann hefur skorað þrjú mörk eftir að hafa komið inn á sem varamaður.
Atli Viðar Björnsson er kominn í þriðja sinn í færi við Gullskóinn í lokaumferðinni. Hann hefur skorað þrjú mörk eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Mynd/Valli
KR-ingar eru Íslandsmeistarar, Víkingur og ÍA eru fallin í 1. deild og bæði FH og Stjarnan hafa tryggt sér sæti í Evrópukeppninni að ári. Það er því ekki mikið undir hjá liðunum í lokaumferð Pepsi-deildar karla en markahæstu mennirnir eru aftur á móti ekki búnir að segja sitt síðasta í baráttunni um gull-, silfur- og bronsskóinn.

Fjórir leikmenn eiga raunhæfa möguleika á því að fá tilnefninguna markakóngur en Framarinn Hólmbert Aron Friðjónsson er þó ekki í sterkri stöðu enda tveimur mörkum á eftir efstu mönnum og í heimsókn hjá Íslandsmeisturum KR.

KR-ingurinn Gary Martin er markahæstur og verður alltaf hærri en Viðar Örn Kjartansson verði þeir jafnir því Englendingurinn hefur spilað í mun færri mínútur. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, hefur tekið hann fjórtán sinnum út af í sumar, sem kemur sér vel núna. Viðar hefur aðeins verið tekinn einu sinni út af og það á 87. mínútu.

Gary Martin hefur verið sjóðheitur enda með fimm mörk í síðustu fjórum leikjum en Viðar Örn Kjartansson hefur skorað jafnt og þétt í allt sumar og er með þrjú mörk í síðustu fjórum leikjum.

Sá allra heitasti í deildinni síðustu vikurnar hefur hins vegar verið FH-ingurinn Atli Viðar Björnsson, sem hefur skorað fimm mörk á síðustu 130 mínútum eða mark á 26 mínútna fresti.

Atli Viðar er einn af markahæstu leikmönnum efstu deildar frá upphafi og enginn hefur skorað fleiri mörk fyrir FH í efstu deild. Atla vantar hins vegar gullskóinn til að fullkomna safnið. Hann fékk silfurskóinn 2009 og 2011 og bronsskóinn 2010. Atli Viðar missti af gullskónum fyrir fjórum árum þrátt fyrir að vera með þriggja marka forskot fyrir lokaumferðina því KR-ingurinn Björgólfur Takefusa skoraði fimm mörk í lokaumferðinni. Sumarið 2010 skoraði Atli Viðar jafnmörg mörk og þeir markahæstu en lék þá fleiri leiki.

Hér fyrir neðan eru upplýsingar um markahæstu leikmenn deildarinnar en þar er hægt að sjá tölur yfir leiki og spilaðar mínútur í sumar en það eru einmitt þær tölur sem ráða röðinni skori leikmenn jafnmörg mörk.

Þessir eiga möguleika á því að vinna gullskóinn í dag:
Mynd/Anton
Gary John Martin

22 ára framherji KR

12 mörk

21 leikur/1678 mínútur

Skór í skápnum

Enginn

Hitastigið

5 mörk í síðustu 4 leikjum

Mörk í fyrri leiknum

0 mörk á 90 mínútum á móti Fram (úti)

---

Viðar Örn Kjartansson

22 ára framherji Fylkis

12 mörk

21 leikur/1887 mínútur

Skór í skápnum

Enginn

Hitastigið

3 mörk í síðustu 4 leikjum

Mörk í fyrri leiknum

0 mörk á 90 mínútum á móti ÍA (heima)

---

Atli Viðar Björnsson

33 ára framherji FH

11 mörk

18 leikir/1044 mínútur

Skór í skápnum

2 silfurskór og einn bronsskór

Hitastigið

5 mörk í síðustu 4 leikjum

Mörk í fyrri leiknum

0 mörk á 17 mínútum á móti Stjörnunni (úti)

---

Hólmbert Aron Friðjónsson

20 ára framherji Fram

10 mörk

20 leikir/1599 mínútur

Skór í skápnum

Enginn

Hitastigið

1 mark í síðustu 5 leikjum

Mörk í fyrri leiknum

1 mark á 90 mínútum á móti KR (heima)

--

Chukwudi Chijindu

27 ára framherji Þórs

9 mörk

17 leikir/1321 mínúta

--

Hörður Sveinsson

30 ára framherji Keflavíkur

9 mörk

20 leikir/1537 mínútur

- Á bronsskó síðan 2004

--

Halldór Orri Björnsson

26 ára miðjumaður Stjörnunnar

9 mörk

20 leikir/1800 mínútur

--

Björn Daníel Sverrisson

23 ára miðjumaður FH

9 mörk

21 leikur/1875 mínútur

- Er í banni í dag




Fleiri fréttir

Sjá meira


×