Innlent

Rýr hlutur sjálfstæðiskvenna í borginni

Símon Birgisson skrifar
Slæmt gengi sjálfstæðiskvenna í prófkjöri helgarinnar er ekki sögulegt einsdæmi.
Slæmt gengi sjálfstæðiskvenna í prófkjöri helgarinnar er ekki sögulegt einsdæmi.
Konur hafa lengi átt undir högg að sækja í íslenskum stjórnmálum og er þar Sjálfstæðisflokkurinn ekki undanskilinn, eins og sjá má á niðurstöðum nokkurra prófkjöra í fortíðinni.

1981 Davíð Oddsson bauð sig fram gegn Alberti Guðmundssyni í fyrsta sætið. 5.917 manns greiddu atkvæði og hlaut Davíð um 3.500 atkvæði. Prófkjörið vakti sérstaka athygli fyrir hve skarðan hlut konur báru frá borði en í ellefu efstu sætunum voru aðeins tvær konur.

1997 Inga Jóna Þórðardóttir og Árni Sigfússon bitust um fyrsta sætið. 6.575 greiddu atkvæði. Árni sigraði örugglega og fékk 4.542 atkvæði í fyrsta sæti. Í öðru sæti varð Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson en Inga Jóna hafnaði í þriðja sæti.

2002 Sjálfstæðisflokkurinn stillti upp lista og sóttist Inga Jóna Þórðardóttir eftir því að leiða hann. Uppstillingarnefnd ákvað hins vegar að stilla Birni Bjarnasyni upp sem oddvita. Þegar hann varð ráðherra tók Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson við.

2005 Stærsta prófkjör í sögu Sjálfstæðisflokksins fór fram. 12.000 manns tóku þátt í prófkjörinu þar sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Gísli Marteinn Baldursson tókust á um fyrsta sætið. Vilhjálmur sigraði en Hanna Birna Kristjánsdóttir fékk örugga kosningu í annað sætið.

2010 Hanna Birna var kosinn oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni. 7.173 tóku þátt í prófkjörinu og Hanna Birna fékk 5.746 atkvæði í fyrsta sætið. Júlíus Vífill lenti í öðru sæti. Fimm konur voru í tíu efstu sætum listans, líkt og nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×