Krakkar úr átta skólum sýndu þar listir sínar í feiki öflugum atriðum en það var Langholtsskóli sem bar sigur úr býtum með atriði sem nefnist Hjartað. Í öðru sæti hafnaði Réttarholtsskóli og Hlíðaskóli í því þriðja.
Í siguratriðinu fjölluðu fulltrúar Langholtsskóla um fordóma vegna kynhneigðar með því að snúa við hinni venjulegu sýn í þeim efnum. Stúlka og piltur felldu hugi saman en það var ekki ásættanlegt í heimi þar sem flestir voru samkynhneigðir.
Eva Einarsdóttir, formaður ÍTR, afhenti sigurvegurunum Skrekksstyttuna eftirsóknarverðu og þakkaði um leið Markúsi Guðmundssyni forstöðumanni Hins Hússins fyrir umsjónina með keppninni síðastliðin tuttugu ár.

