Skoðun

Fordómar fjötra

Marta Mirjam Kristinsdóttir skrifar
Að búa saman í samfélagi krefst þess að fólk sýni hvert öðru skilning og virðingu. Því miður er það hins vegar ekki sá veruleiki sem við búum við. Kynþáttafordómar eru, vægt til orða tekið, ein birtingarmynd skorts á umburðarlyndi. Í dag, 21. mars, er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynþáttafordómum. Dagurinn er til minningar um þá 69 friðsömu mótmælendur sem myrtir voru af lögreglu í Suður-Afríku þennan dag árið 1960.

Undanfarið hefur lítið borið á umræðu um kynþáttafordóma á Íslandi, a.m.k. miðað við umfang umræðunnar í nágrannalöndum okkar. Það þýðir þó ekki að kynþáttafordómar séu ekki til staðar hér á landi. Ekki er langt síðan fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hafði uppi þau orð að Albanir væru „mestmegnis glæpamenn“. Viðkomandi aðili baðst þó afsökunar á ummælunum og er það vel.

Ástæða þess að ég dreg þetta atriði sérstaklega fram er sú að þema dagsins í dag eru kynþáttafordómar í íþróttum. Vissulega eru þeir til staðar eins og annars staðar, því miður, en það er von mín og trú að dagurinn í dag veki íþróttahreyfinguna til umhugsunar. Í íþróttum eru nefnilega mikil tækifæri til þess að kynnast annarri menningu og vinna gegn kynþáttafordómum.

Í starfi mínu fyrir Alþjóðleg ungmennaskipti (AUS) hef ég séð ungmenni fara til fjarlægra landa til að starfa sem sjálfboðaliðar við ýmiss konar íþróttastarf. Ungmennin starfa t.d. á munaðarleysingjaheimilum og í skólum þar sem þau nýta íþróttir til þess að tengjast heimamönnum áður en þau ná tökum á tungumálinu. Löngun erlendra sjálfboðaliða sem hér starfa stendur líka oft og tíðum til þess að stunda hér íþróttir og fá þannig að kynnast Íslendingum. Það er gaman að sjá ungmennin öðlast skilning hvert á samfélagi annars á þennan hátt eða einhvern annan í gegnum sjálfboðaliðastarfið.

Fordómar eiga rót sína að rekja til þess að fólk þekkir ekki til og skortir upplýsingar. Að búa erlendis og fá innsýn í ólíkan menningarheim stuðlar að þroska og víðsýni viðkomandi og er frábært tækifæri fyrir bæði einstaklinginn og samfélagið.

Markmið AUS er m.a. að byggja brýr milli ólíkra menningarheima og vinna þannig gegn fordómum. Að gerast sjálfboðaliði eða að taka á móti ungmenni á heimili sitt og gerast fósturfjölskylda er hvoru tveggja lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn kynþáttafordóma. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur tækifæri AUS á www.aus.is og munum að baráttan gegn kynþáttafordómum vinnst ekki á einum degi heldur þurfum við sífellt að vera á varðbergi.




Skoðun

Sjá meira


×