Innlent

Útséð með kornrækt í Svarfaðardal í sumar

Kornakur Trausta á Hofsá 8. maí. Girðingarstaurarnir segja heimamönnum að snjófargrið á landinu er jafnfallið yfir metri á dýpt.
Kornakur Trausta á Hofsá 8. maí. Girðingarstaurarnir segja heimamönnum að snjófargrið á landinu er jafnfallið yfir metri á dýpt. Mynd/Trausti Þ
Trausti Þórisson, bóndi á Hofsá í Svarfaðardal, segir málið einfalt spurður um aðstæður í Svarfaðardal. „Það er glórulaust að stefna að því að sá korni hér. Miðað við hvernig staðan er í dag þá yrði það ekki fyrr en í júní í fyrsta lagi. Og það er einfaldlega of seint,“ segir Trausti.

Trausti segir að þetta eigi við um aðra kornbændur í Dalvíkurbyggð en allt annað sé uppi á teningnum inn í Eyjafirði. „Þar held ég að einhverjir séu í startholunum að sá þar. Það eru miklir öfgar í þessu því við þurfum ekki nema 20 kílómetra nær Akureyri og þá er snjólaust. Hér er aftur allt á kafi,“ segir Trausti og bætir við að sveitungar hans lendi ekki eins illa í því og Hörgdælingar þar sem er minni snjór. Þar blotnaði í snjó og allt breyttist í klaka. „Við höldum í vonina um að það sé ekki dautt undir snjónum hjá okkur. En það kemur ekki í ljós fyrr en snjóa leysir.“

Trausti hefur nýtt sitt korn sjálfur í fóður. Ef allt fer sem horfir er ljóst að fóðurbætiskaup aukast verulega og það er ekki gefið. Kílóið af fóðurbæti fer á um 100 krónur, heimfluttur, en ræktað kíló af korni leggur sig á 30 til 35 krónur kílóið.

Trausti víkur að því að miklir heyflutningar séu í gangi norður, aðallega frá Suðurlandi. Hann tekur sérstaklega til þess að sunnlenskir bændur hafi verið mjög liðlegir og sanngjarnir í verðlagningu. „Menn hafa ekki verið að okra þó að aðstæður bjóði klárlega upp á það,“ segir Trausti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×