Innlent

"Við höldum áfram að ganga þessa göngu þar til allir eru hættir að nauðga."

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ræðuhöld og dagskrá fara nú fram í tilefni Druslugöngunnar fyrir troðfullum Austurvelli. Þetta er í þriðja sinn sem gangan er farin. Var gengið niður Skólavörðustíginn frá Hallgrímskirkju klukkan tvö í dag og lauk göngunni á Austurvelli. Þar tóku við ræðuhöld og tónleikar.

Talskona Druslugöngunnar, María Rut Kristinsdóttir, ávarpaði hópinn. Hún segir í samtali við Vísi að hún eigi erfitt með að lýsa líðan sinni. „Ég er snortin. Ég er meyr en líka ótrúlega stolt yfir því hversu margir mættu og sýndu samstöðu. Það er svo mikilvægt hvað það er mikil eining yfir þessu málefni,“ segir hún. Hún segir ræðuhöldin hafa heppnast einstaklega vel en ásamt henni héldu Brynhildur Björnsdóttir og Dagur B. Eggertsson ræðu. „Ég var með gæsahúð allan tímann meðan þau voru að tala.“  María segir hinn stóra hóp þátttakenda afar fjölbreyttan. „Hér er alls konar fólk. Börn og fullorðnir, allir í allskonar og engum fötum. Það tóku allir þátt.“

Hún segir það mikilvægt að hætta að vera með grá svæði. „Hættum meðvirkni og verum beinskeytt. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir þessu vandamáli. Þetta er að gerast alltof oft og við verðum að tala um þetta hispurslaust.“  Hún segir þetta bestu druslugöngu sem haldin hefur verið. „Eins og ég sagði í ræðunni minni þá höldum við áfram að ganga þessa göngu þar til allir eru hættir að nauðga.“ 

Var Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, einnig með kraftmikla ræðu og er umtalað á staðnum hversu góð hún var að sögn Önnu Gyðu Sigurgísladóttur, þátttakanda í göngunni. „Það er ótrúlega gott veður. Það er gaman að svona dagur fái þetta fallega veður. Hann á það svo skilið,“ segir Anna. „Það er mikið af fólki, meira heldur en nokkurn tímann áður skilst mér.“ Hún segir að það sé mikil stemning í bænum og samstaða meðal fólks.

Hljómsveitin Samaris spilaði, steig rapparinn Kött Grá Pjé einnig á stokk og lýkur Gísli Pálmi dagskránni nú um fjögurleytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×