Enski boltinn

Paulinho þráir velgengni með Tottenham

Stefán Hirst Friðriksson skrifar
Paulinho og Neymar
Paulinho og Neymar
Brasilíumaðurinn Paulinho, sem nýverið var keyptur frá Corinthians til Tottenham á Englandi, segist þrá velgengi með sínu nýja félagi.

Leikmaðurinn hefur gengið í gegnum ýmsa erfiðleika á sínum ferli og segist hann staðráðinn í að standa sig. Paulinho spilaði með félögum í Litháen og Póllandi áður en hann flutti sig aftur til heimalandsins og nú síðast til Englands.

„Ég hef gengið í gegnum margt, mikið af erfiðum tímum á mínum ferli en ég hef aldrei gefist upp. Ég vissi alltaf hvað ég hef fram á að færa á vellinum. Það er lykilatriði að gefast aldrei upp og halda alltaf áfram að berjast fyrir þínu. Ferillinn minn leit ekki vel út á tímabili en ég fór aftur til Brasilíu og náði að skína þar og þá fékk ég sénsinn," sagði Paulinho.

Leikmaðurinn var frábær á Álfukeppninni í sumar og var hann lykilþáttur í velgengni Brasilíu á mótinu.

„Það var frábært að vinna Álfukeppnina. Ég bjóst aldrei við því að spila með landsliðinu ásamt þessum frábæru leikmönnum. Nú er ég kominn til Tottenham og er ég mjög ánægður með það. Ég hef fulla trú á því að við getum gert góða hluti hér," sagði leikmaðurinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×