Icelandair hefur ákveðið að fella niður flug milli Keflavíkur og New York á morgun vegna fellibylsins Sandy. Fram kemur í tilkynningu frá flugfélaginu að fjórar flugferðir eru felldar niður. Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting valdi röskun á öðru flugi Icelandair.
Þessar flugferðir eru felldar niður:
FI 615 frá Keflavík til New York,
FI 617 frá Keflavík til New York,
FI 614 frá New York til Keflavíkur,
FI 616 frá New York til Keflavíkur
Farþegum er bent á nánari upplýsingar á vef félagsins icelandair.is.
Í frétt á vef BBC segir raunar að allar almenningssamgöngur í New York muni leggjast af í nótt og á morgun. Andrew Cuomo ríkisstjóri segir að neðanjarðarlestir, rútur og lestir munu hætta að ganga um klukkan ellefu að íslenskum tíma í kvöld.
Allt að 375 þúsund manns hefur verið fyrirskipað að yfirgefa heimili sín, en um er að ræða staði á láglendi. Þá verður skólum lokað.
BBC segir að fjölmörg ríki á Austurströnd Bandaríkjanna hafi lýst yfir neyðarástandi vegna fellibylsins. Gert er ráð fyrir því að hann muni geta haft áhrif á um 60 milljónir manna.
Flugi til New York aflýst vegna fellibyls
