Innlent

Kæra Framsóknarflokkinn fyrir að taka við of háum styrk

Áhugamenn um fjármál stjórnmálasamtaka hafa kært Framsóknarflokkinn fyrir að hafa tekið við styrkjum frá Síldarvinnslunni, Gjögur og Samherja árið 2011 fyrir 850 þúsund krónur alls.

Í tilkynningu frá áhugamönnunum segir: „Samkvæmt ársreikningi Síldarvinnslunnar fyrir árið 2011 átti Samherji 45% í Síldarvinnslunni og Gjögur 34%. Með vísan til þess hvernig tengdir aðilar eru skilgreindir í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka fæst ekki betur séð en að brotið hafi verið gegn ákvæðum um hámarksframlög lögaðila þar sem framlög tengdra aðila skuli teljast saman."

Áður höfðu áhugamennirnir kært meint brot Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka.

Meint brot varðar ákvæði laganna um framlög tengdra aðila til stjórnmálasamtaka en samkvæmt lögunum er hámarksframlag lögaðila til stjórnmálastamtaka 400 þúsund krónur á ári og skal telja framlög tengdra aðila saman.

Lögreglustjóri svaraði þeim hinsvegar þann 15. október síðastliðinn og kom þar fram að meintu brotin væru nú fyrnd, því hæfist ekki lögreglurannsókn á þessum atriðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×