Vegagerðin hefur unnið að snjómokstri víða í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Egilsstöðum er nú búið að opna tengingu milli bæjarins og Reyðarfjarðar. Ljóst er að snjóflóð féll á veginn við Grænafell.
Annars er unnið að snjómokstri innanbæjar, eða grafa fólk úr út heimilum sínum, eins og varðstjóri lögreglunnar á Egilsstöðum komst að orði.
Hann segist aldrei hafa séð svo mikinn snjó í bænum fyrir áramót. Hálka er á Oddskarð og í Fagradal. Þá eru hálkublettir frá Fáskrúðsfirði að Djúpavogi.
Hið sama er upp á teningnum á Norðurlandi en þar er víða unnið að mokstri. Hálka er í Húnavatnssýslum og í Skagafirði en hálkublettir á Þverárfjalli.
Þæfingsfærð er á Öxnadalsheiði en snjóþekja í Öxnadal og einnig við Mývatn.
Á Vestfjörðum er bæði hálka og hálkublettir víðast hvar. Unnið er að mokrstri á Klettshálsi og Hjallahálsi. Ófært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.
Þá er hálka á Holtavörðuheiði en hálkublettir á Bröttubrekku og sumstaðar í Borgarfirði. Einnig eru hálkublettir á Fróðárheiði.
Grafa fólk út úr heimilum sínum
