Við þingfestingu málsins kom fram að kona á þrítugsaldri hefði játað að hafa ein skipulagt stórfellt fíkniefnasmygl í lok maí síðastliðnum. Konan fékk móður sína til að flytja ferðatösku hingað til lands frá Danmörku sem innihélt rúmlega hálft kíló af kókaíni. Móðirin var stöðvuð á Keflavíkurflugvelli við hefðbundið eftirlit. Kærasti konunnar, maður á fertugsaldri, er einnig ákærður fyrir fíkniefnainnflutninginn en hann neitaði sök.

Ákæran er í fjórum liðum. Auk fíkniefnainnflutningsins frá Danmörku, neitaði parið að hafa lagt á ráðin um að flytja um 350 grömm af kókaíni hingað til lands og hafa fengið par á fertugsaldri til að sækja efnin til Spánar og flytja þau til Íslands. Parið, sem flutti efnin hingað til lands, eru ákærð fyrir sinn þátt í málinu en þau mættu ekki við þingfestinguna í morgun.
Þá er parið ákært fyrir að hafa fjármagnað og skipulagt innflutning á 140 grömmum af kókaíni frá Danmörku til söludreifingar í ágóðaskyni hér landi. Konan neitaði sök en maðurinn játaði að hluta, þar sem hann sagðist hafa staðið einn af innflutningnum. Kókaínið afhentu þau einstaklingi í Kaupmannahöfn í febrúar á þessu ári, en ekkert varð að innflutningnum þar sem sá einstaklingur hvarf frá verkinu.
Þá er konan ákærð fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna í maí á þessu ári. Við leit í bíl hennar fannst lítilræði af kókaíni og marijúanna.