Innlent

Húsnæðislaust höfuðsafn

Verið er að pakka niður safnkosti, en því starfi skal vera lokið um áramót. Velgjörðarmenn ámálga að fá muni sína til baka vegna stöðu safnsins.
Verið er að pakka niður safnkosti, en því starfi skal vera lokið um áramót. Velgjörðarmenn ámálga að fá muni sína til baka vegna stöðu safnsins. fréttablaðið/valli
Unnið er að því að pakka niður safnkosti Náttúruminjasafns Íslands. Hætt hefur verið við sýningarhald í gömlu loftskeytastöðinni. Ekkert liggur fyrir um framtíðarhúsnæði safnsins en unnið er að safnastefnu.

Náttúruminjasafn Íslands (NMÍ), sem er höfuðsafn á sviði náttúrufræða, er húsnæðislaust frá og með áramótum. Hætt hefur verið við sýningarhald í gömlu Loftskeytastöðinni við Brynjólfsgötu. Verið er að pakka niður safnkosti. Ekkert liggur fyrir um framtíðarhúsnæði safnsins.

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður er settur safnstjóri NMÍ til eins árs. Hún segir að húsnæðið við Brynjólfsgötu hafi verið hugsað sem bráðabirgðahúsnæði sem henti ekki til varðveislu safnkosts og því sé verið að koma gripum fyrir í viðunandi geymslu. Rætt hafi verið við Náttúrufræðistofu Kópavogs um hýsingu.

Húsnæðið á Brynjólfsgötu er í eigu Þjóðminjasafnsins og samkvæmt heimildum blaðsins stendur til að Leikminjasafn Íslands, sem er einkasafn, flytji þar inn. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun um það, að sögn Margrétar.

„Mitt hlutverk er að koma málefnum NMÍ í betri farveg, meðal annars að klára safnastefnu NMÍ sem hefur verið í vinnslu í mörg ár. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki fyrir áramót og þar verður lagður nauðsynlegur grundvöllur til framtíðar. Svo er verið að gera formlegt samstarfssamkomulag við stofnanir á sviði náttúruvísinda, sem var löngu tímabært.“

Um húsnæðismálin segir Margrét að Perlan í Öskjuhlíð sé til skoðunar sem sýningarhús, en annað húsnæði hafi ekki verið skoðað formlega, þó fleiri hugmyndir hafi verið nefndar. „En það eru engar áætlanir um að leggja safnið niður; þvert á móti stendur hugur allra til að veglegt safn á sviði náttúruvísinda rísi,“ segir Margrét.

Helgi Torfason, safnstjóri í rannsóknaleyfi, telur möguleika til safnastarfs í Loftskeytastöðinni ágæta, þó vissulega hafi verið um húsnæði til bráðabirgða að ræða. Þar hafi verið safn um langt skeið og Margrét hafi sjálf boðið Loftskeytastöðina undir safnið á sínum tíma. Sýningarrýmið sé jafnstórt og í Þjóðmenningarhúsinu, eða Safnahúsinu gamla þar sem sýning náttúruminja stóð uppi um áratuga skeið, og safnið hafi farið inn í Loftskeytastöðina til að koma í veg fyrir að það væri landlaust með öllu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa nýjustu vendingar haft það í för með sér að velunnarar safnsins, bæði innlendir sem erlendir, hafa ámálgað að fá safngripum sínum, sem þeir hafa afhent safninu, skilað til baka. Um óbætanlegt tjón væri að ræða fyrir safnið ef svo færi. svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×