Erlent

Fundu sögulegan silfurfjársjóð frá járnöldinni í Danmörku

Hróarskeldusafn hefur greint frá sögulegum fjársjóði frá járnöldinni sem fannst í sveitarhéraði rétt fyrir utan Hróarskeldu.

Um er að ræða silfurfjársjóð frá því í upphafi fimmtu aldar. Hann inniheldur skartgripi, myntir, rómversk hnífapör og mataráhöld auk stanga úr silfri. Einnig hefur fundist hringlaga gullstöng. Þessi silfursjóður er þegar orðinn nær þrjú kíló að þyngd enda er um fleiri hundruð gripi að ræða.

Í umfjöllun Jyllands Posten um málið segir að uppgreftrinum sé ekki lokið og því eru öll kurl ekki komin til grafar. Raunar eru veðmál í gangi um hvort þetta verði stærsti járnaldarfjársjóður sem fundist hefur í Danmörku. Sá stærsti hingað til er 4,5 kíló að þyngd.

Það voru þrír áhugamenn um fornleifafræði sem fundu fjársjóðinn á óbyggðu landi fyrir utan þorpið Lejre. Þeir höfðu kannað þetta svæði í sumar með málmleitartækjum þar til þeir duttu í lukkupottinn.

Samkvæmt dönskum lögum telst fjársjóðurinn þjóðareign en hann verður til sýnis á Hróarskeldusafninu frá og með næstu mánaðarmótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×