Innlent

Bætt við 300 tonnum í netin

SHÁ skrifar
Mikill áhugi er á síldveiðum í net á Breiðafirði, sem kristallast í ákvörðun um aukinn kvóta.
Mikill áhugi er á síldveiðum í net á Breiðafirði, sem kristallast í ákvörðun um aukinn kvóta.
Ákveðið hefur verið að bæta 300 tonnum við heimildir til síldveiða með reknet í Breiðafirði og telst það lokaúthlutun þessa fiskveiðiárs. Heildarmagnið er þá orðið 900 tonn.

Undanfarin tvö fiskveiðiár hafa verið stundaðar veiðar á síld í reknet á Breiðafirði að haustlagi og fyrri part vetrar. Síldveiðar bæði stórra og smárra báta á Breiðafirði nú í haust hafa gengið vel, og þá virðist sýking í síldinni heldur á undanhaldi.

Bæjarstjórn Stykkishólms hafði fyrr í vikunni skorað á ráðherra að auka síldarkvóta til netaveiða á Breiðafirði. Í áskorun bæjarstjórnar segir að öll rök séu fyrir að hagkvæmt og rétt sé að heimila síldveiðar smábáta í net í mun meira magni en gert er.

„Netaveiðarnar eru umhverfisvænar og koma sjómenn með gæðahráefni til vinnslu. […] Þegar fyrirkomulag veiða og vinnslu er með þessum hætti er verðmæta- og atvinnusköpunin eins og best verður á kosið,“ segir í bréfi bæjarstjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×