Innlent

Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hófust

Jónas Margeir Ingólfsson og Sigurður Þorri Gunnarsson skrifar
Framkvæmdir hófust við Vaðlaheiðargöng í morgun. Undirbúningsvinnan er farin af stað en talið er að byrjað verði að sprengja um áramótin.

Í morgun hófst vinnan en byrjað verður á því að smíða bráðabirgðabrú sem byggð verður yfir þjóðveginn til að raska ekki umferð þegar vegurinn verður lagður að göngunum.

„Það snýr í raun bara að undirstöðunum á þessari bráðabirgðabrú sem kemur hérna til móts við okkur yfir þjóðveginn. Hún er í raun bara ætluð undir umferð sem kemur að göngunum, efnisflutningar og annað, geti farið yfir hana. Þá getur önnur almenn umferð farið um þjóðveginn," segir Hjálmar Guðmundsson, verkstjóri.

Allt grjót verði þannig flutt yfir veginn.

„Þaðan verður það svo tekið og keyrt alla leið inn á flugvöll og notað í stækkun og uppfyllingar þar," segir hann.

Hann segir framkvæmdirnar eiga eftir að taka tvö til þrjú ár.

Hvar er gangamunninn nákvæmlega? Hvað eigið þið eftir að vinna ykkur langt upp heiðina? spyr fréttamaður.

„Við eigum eftir að fara einhverja hundrað metra. Þarna uppi í hlíðinni glittir í fuglabjarg og þar er gangamunninn um það bil," segir hann.

Hann segir tólf til fimmtán manns starfa við undirbúningsframkvæmdirnar.

„Þó það séu kannski ekki háar tölur smitar þetta óumflýjanlega út frá sér á mörgum stöðum. Vonandi er þetta eitthvað sem að þaggar niður allar úrtöluraddir í rólegheitum," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×