Innlent

Stjórnvöld þurfa að ganga frá samningum

Alls fengu um 1.100 einstaklingar greiddan endurhæfingarlífeyri á síðasta ári, sem samsvaraði um 2,3 milljörðum króna. fréttablaðið/GVA
Alls fengu um 1.100 einstaklingar greiddan endurhæfingarlífeyri á síðasta ári, sem samsvaraði um 2,3 milljörðum króna. fréttablaðið/GVA
Ekki hefur enn verið gengið frá samningum milli velferðarráðuneytisins og VIRK starfsendurhæfingarsjóðs vegna nýlegra lagabreytinga um atvinnutengda starfsendurhæfingu. Ríkisendurskoðun gagnrýnir stjórnvöld í nýrri úttekt á einstaklingsmiðaðri starfsendurhæfingu í landinu.

Þar kemur meðal annars fram að stjórnvöld þurfi að marka heildstæða stefnu um málefni einstaklinga með skerta starfsgetu og efla samstarf sitt við aðila vinnumarkaðarins á þessu sviði, sér í lagi í ljósi lagabreytingarinnar, sem gerir það að verkum að Virk og aðrir sambærilegir starfsendurhæfingarsjóðir taki við umsýslu fjármagns frá ráðuneytinu til að ráðstafa til starfsendurhæfingarstöðva á landinu öllu.

Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að forsvarsmenn starfsendurhæfingarstöðva væru áhyggjufullir vegna lagabreytinganna. Ríkisendurskoðun tekur einnig fram í skýrslu sinni að mikilvægt sé að auka stuðning við þá sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda, en tæplega 15.200 Íslendingar fengu greiddan örorkulífeyri í árslok 2011, sem gerir um það bil fimm prósent af heildaríbúafjölda landsins. Hlutfallið hefur farið hækkandi síðustu ár.

Eins fengu um 1.100 einstaklingar greiddan endurhæfingarlífeyri árið 2011. Bótagreiðslur til hópanna námu um 31 milljarði króna, þar af voru bætur til endurhæfingarlífeyrisþega rúmlega 2,3 milljarðar.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×