Innlent

Tófan bar sigur úr býtum

Júlíus Valsson segir það heilmikla hvatningu og lyftistöng að hafa sigrað í keppninni. Hann hyggur á útgáfu smásagnasafns í vor. 
Fréttablaðið/Stefán
Júlíus Valsson segir það heilmikla hvatningu og lyftistöng að hafa sigrað í keppninni. Hann hyggur á útgáfu smásagnasafns í vor. Fréttablaðið/Stefán
Smásagan Tófan eftir Júlíus Valsson lækni bar sigur úr býtum í jólasögusamkeppni Fréttablaðsins sem efnt var til í fyrsta sinn í ár. Yfir 250 sögur bárust í keppnina og hafði dómnefnd því úr nógu að moða.

Þrjár sögur voru að endingu fyrir valinu. Í þriðja sæti var sagan Hvít jól eftir Sif Sigmarsdóttur, í öðru sæti sagan Fjárhúsin eftir Steinunni Guðmundsdóttur og sem fyrr segir var sagan Tófan eftir Júlíus Valsson í fyrsta sæti.

Júlíus er læknir en hefur fengist við ritstörf um langt skeið. Hann á meðal annars sögu í smásagnasafni sem kom út á rafbók á vegum Rithrings.is á dögunum ætlar að gefa út eigið smásagnakver í vor. Tófuna samdi Júlíus sérstaklega fyrir keppnina en segir hugmyndina að baki henni hafa blundað með sér um skeið.

„Ég er sjálfur veiðimaður og persónurnar eru gamlir kunningjar ef svo má segja.“ Hann segir það sér mikils virði að hafa sigrað í keppninni. „Þetta er heilmikil hvatning og lyftistöng.“

Júlíus fékk í verðlaun Intel Pentium-fartölvu frá Toshiba, en Steinunn og Sif fengu spjaldtölvur af gerðinni United í boði Tölvulistans.

Í dómnefnd sátu Steinunn Stefánsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson og Arndís Þórarinsdóttir. Um söguna sem hreppti hnossið segja þau. „Tófan er haganlega skrifuð saga. Hún kannski ekki hefðbundin jólasaga, í það minnsta framan, af en boðskapur hennar er sígildur.“

- bs/ Jólasagan Tófan er á síðu 18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×