Innlent

Beiti áfengismælum stífar á skólakrakka

gar@frettabladid.is skrifar
Fjölbrautaskóli Vesturlands Foreldrar á Akranesi segja unglingadrykkju hafa aukist á ný eftir að framhaldsskólinn í bænum hætti að láta nemendur blása í áfengismæla á skólaböllum.Fréttablaðið/Pjetur
Fjölbrautaskóli Vesturlands Foreldrar á Akranesi segja unglingadrykkju hafa aukist á ný eftir að framhaldsskólinn í bænum hætti að láta nemendur blása í áfengismæla á skólaböllum.Fréttablaðið/Pjetur
„Foreldrar og lögregla eru sammála um að enn á ný sé drykkjan á skólaböllum að aukast,“ segja foreldrar á Akranesi í bréfi til skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Bréfið til Atla Harðarsonar skólameistara er frá félaginu Skagaforeldrar og Foreldrafélagi Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi (FVA). Kemur fram að þegar fyrir ári hafi stjórn Skagaforeldra lýst óánægju með að hætt hafi verið reglulegri notkun áfengismæla á vegum nemendafélags fjölbrautaskólans (NFFA).

„Margir nýnemar töluðu um að með því að láta alla blása létti það á spennunni og tók af þeim þá pressu að „verða að drekka“ á skólaballi,“ segja foreldrarnir. Ástandið hafi á sínum tíma breyst mikið til hins betra þegar áfengismælunum var beitt. Nú sé drykkjan aftur að aukast.

„Einnig hafa foreldrar haft á orði að gæsla sé ekki jafn öflug og hún var og slakað hafi verið á því að hringt sé í foreldra til að sækja drukkin börn 18 ára og yngri á dansleiki. Það hlýtur að vera stefna skólans að útrýma áfengisdrykkju á skóladansleikjum,“ segja foreldrarnir.

Fram kemur að Skagaforeldrar hafi kannað notkun áfengismæla í öðrum framhaldsskólum. Mælarnir séu notaðir í þrettán skólum eftir mismunandi reglum. „Það er algjör synd að að tapa niður þeim árangri sem náðst hefur,“ segja foreldrarnir. Þó að börn undir átján ára séu á ábyrgð foreldranna sé ábyrgð skólans mikil „með því að skapa nemendum tækifæri til að skemmta sér ofurölvi í skjóli þess að um að skóladansleik er að ræða“.

Atli Harðarson skólameistari segir áfengismælingar ekki hafa verið lagðar af. Framkvæmdinni hafi hins vegar verið breytt.

„Áður fékk yngri hluti nemenda ekki inngöngu á ball nema sanna að hann væri edrú. Umboðsmaður Alþingis sagði þessa framkvæmd ekki í samræmi við lög. Hins vegar væri okkur heimilt að gefa nemendum sem væru sérstaklega grunaðir um að vera undir áhrifum kost á að sanna sakleysi sitt með því að nota áfengismæli eða vera vísað frá vegna ölvunar,“ segir Atli. Þetta verklag sé nú við lýði.

Atli segir að nú blási í raun fleiri í áfengismælinn en áður því settur hafi verið upp edrúpottur með happdrættisvinningum. Mælirinn sé því einnig notaður af eldri nemendum.

Að sögn Atla eru engin gögn til um að drykkjan hafi aukist eða minnkað. „En ég veit að erfiðum málum sem hafa komið inn á borð skólastjórnenda vegna drykkju hefur fækkað ári frá ári,“ segir skólameistarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×