Innlent

Upptaka Eista á evru eyddi óvissuástandi

thorgils@frettabladid.is skrifar
Urmas Paet
Urmas Paet
Reynsla Eista frá upptöku evru í upphafi síðasta árs hefur verið jákvæð að sögn Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, sem var staddur hér á landi í gær.

Á meðan á heimsókninni stóð hélt hann meðal annars erindi á málfundi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um reynslu Eistlands, en ríkið tók upp evru hinn 1. janúar 2011, fyrst Eystrasaltsríkjanna þriggja sem gengu í ESB vorið 2004.

Í samtali við Fréttablaðið sagði Paet að í sjálfu sér hafi ekki verið mikil vandræði beintengd eistnesku krónunni, en hún hafi þó falið í sér ákveðna óvissu.

„Það olli því að fjárfestar héldu að sér höndum. En nú, eftir að við tókum upp evru er engu slíku til að dreifa því að traustið á evru er eðlilega almennt meira en á litlum gjaldmiðlum eins og krónunni.“

Spurður um áhrifin af upptöku evrunnar á efnahagslíf Eistlands segir Paet að þar hafi um árabil verið rekin ströng efnahagsstefna. Ríkissjóður sé rekinn í góðu jafnvægi og opinberar skuldir séu með því lægsta sem gerist.

„Þannig er spurningin ekki alltaf um gjaldmiðla, heldur líka hver stefna stjórnvalda er. Upptaka evrunnar var hins vegar okkar leið til að tryggja vöxt hagkerfisins og ríkisfjármálin til lengri tíma litið.“

Varðandi áhrif á almenning í Eistlandi segir Paet að vextir séu lágir í Eistlandi, eins og við er að búast vegna evrunnar, en um talsverða hríð fyrir upptöku evrunnar hafi almenningi þó staðið til boða að taka lán í evrum á lægri vöxtum en krónulán. Erfitt sé þá að meta bein áhrif evrunnar á verðlag, sem hefur farið hækkandi. Fleiri þættir komi þar til, meðal annars huglægir þættir þar sem það gæti hafa tekið neytendur ákveðinn tíma að aðlagast verðmerkingum í nýrri mynt.

„Mitt mat er þó að verðhækkanir hefðu komið til þótt við hefðum ekki tekið upp evru.“

Paet segir að þó að almenningur í Eistlandi hafi ekki fagnað upptöku evrunnar hátt á sínum tíma hafi heldur ekki verið hörð andstaða.

„Almenningur sætti sig hins vegar við að evran væri það skynsamlegasta í stöðunni.“

Litið til framtíðar segir Paet að hann efist ekki um að landið hafi gert rétt í því að taka upp evru. Hvað varðar evrusvæðið í heild segir hann að nú hilli loks undir allt það regluverk sem þurfi til að halda utan um sameiginlega mynt.

„Nú er tilefni til bjartsýni, því að nokkur evruríki sem glímdu við mikla erfiðleika eru að rétta úr kútnum og koma sterk út úr kreppunni, til dæmis Lettland, Írland og jafnvel Portúgal, eftir að hafa tekið á vandanum með öguðum hætti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×