Innlent

Ísland verður í flokki með Sýrlandi

Gylfi Sigfússon
Gylfi Sigfússon
Forsvarsmenn Eimskips hafa sent Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra bréf og farið fram á skýringar og viðbrögð við kröfum Bandaríkjamanna um hertar aðgerðir gegn laumufarþegum á Íslandi.

Þetta segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips. Hann telur Eimskip uppfylla allar öryggiskröfur og gott betur. „Eimskip er að ósekju að dragast inn í deilu sem snýst um málefni hælisleitenda og úrræðaleysis yfirvalda í þeim málaflokki,“ segir hann.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að sendinefnd frá bandaríska heimavarnarráðuneytinu hefði komið hingað til landsins fyrir nokkrum vikum og gert talsverðar athugasemdir við að sami, smái hópur kæmist ítrekað upp með að lauma sér um borð í skip sem væru á leið til Bandaríkjanna.

Þá var greint frá því að bréf hefði verið sent hingað að utan í kjölfar heimsóknarinnar þar sem óánægju var lýst með viðbrögð Íslendinga. Yrði ekki farið að kröfunum gæti Ísland verið fært niður um öryggisflokk sem mundi kalla á mun ítarlegri og tímafrekari skoðanir íslenskra skipa sem leggja að höfn í Bandaríkjunum.

„Ef af því verður er Ísland í flokki með löndum eins og Sýrlandi þar sem stríðsástand ríkir. Það má ekki gerast þar sem það skaðar samgöngur til og frá landinu,“ segir Gylfi. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×