Innlent

Kvarta undan humarskorti

olikr@frettabladid.is skrifar
Grillaður humarhali
Grillaður humarhali
Dæmi eru um að fiskbúðir á höfuðborgarsvæðinu séu alveg uppiskroppa með stóra humarhala. Humarhalar í stærðarflokknum 40 til 70 grömm eru vinsæll hátíðarmatur. Útflutningur á heilum humri og humarhölum hefur aukist og því minna til skiptanna á innanlandsmarkaði.

„Ég hef ekki fengið neinn humar núna fyrir jólin og lifi bara á gömlum birgðum," segir Ásmundur Karlsson, fisksali og veitingamaður í Gallerí Fiski. Nóg sé þó til af smáum og millistærðarhumri. „En mig vantar stærsta og flottasta humarinn og hann virðist ekki vera til á landinu."

Stöku verslanir með fisk sem sýnt hafa sérstaka fyrirhyggju í birgðahaldi eiga þó enn stóra humarhala. Páll H. Pálsson, í Hafinu fiskverslun í Kópavogi, segir allt hafa selst upp hjá þeim fyrir jól í fyrra og þeir því sankað meiru að sér núna. „Við eigum að vera góðir fram að áramótum," segir hann.

Svipaða sögu segir Kristján Berg, fisksali í Fiskikónginum. „Ég er byrjaður að kaupa inn fyrir jólin á sumrin og ligg inni á lager með um 20 milljónir króna bara í humri." Hann segir hins vegar mega gefa sér að allt seljist sem sé til, því fólk horfi alla jafna ekki í verðið þegar það ætli að gera vel við sig einu sinni á ári.

Kílóverðið á stórum humarhölum stendur núna í 7.900 krónum. Álagninguna segir Kristján þó vera mun minni en á öðru sjávarfangi sem hann er með í sölu. „Þetta kostar 6.900 í innkaupum plús skattur," segir hann. Verð sem fáist fyrir humar erlendis hafi hins vegar hækkað um 30 prósent milli ára. „Þeir sem selja humar eru náttúrulega bara í bisness og innanlandsmarkaðurinn hefur sín þolmörk."

Guðmundur H. Gunnarsson, framleiðslustjóri hjá Skinney-Þinganesi, segir gott verð hafa fengist fyrir heilan humar á markaði í Suður-Evrópu. „Og þar af leiðandi minnkar framleiðslan á hölum. En svo hefur líka verið góður markaður fyrir þá, sérstaklega í Norður-Ameríku," segir hann. Þá hafi framleiðendur lagt áherslu á að auka gæði. Við það brotni síður skeljar og hlutur heils humars aukist í sölunni.

Guðmundur segir humarvertíðina standa frá mars og fram í nóvember og að veiði hafi síst verið minni en í fyrra. „En innanlandsmarkaður mætir bara harðri samkeppni, líka út af gengismálum og slíku. Það er erfitt að keppa við það verð sem hægt er að hafa í útflutningnum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×