Innlent

Kyrrstaða er ekki valkostur

Árni Páll Árnason segist sækjast eftir umboði til að breyta. Hann vill ekki leiða flokkinn sem meðreiðarflokk úreltra stjórnmála.fré
Árni Páll Árnason segist sækjast eftir umboði til að breyta. Hann vill ekki leiða flokkinn sem meðreiðarflokk úreltra stjórnmála.fré ttablaðið/villi
Árni Páll Árnason sækist eftir formennsku í Samfylkingunni. Hann segir vinstri stjórn alltaf eiga að vera fyrsta valkost og vill umboð til breytinga. Jafnaðarmenn verði að hafa þrek til erfiðra ákvarðana.

Samfylkingin kýs sér formann í janúar og Árni Páll Árnason, fyrrum félagsmálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur gefið kost á sér, ásamt Guðbjarti Hannessyni. Árni Páll fór út úr ríkisstjórn um áramótin, en hafði í haust sigur í prófkjöri í Suðvesturkjördæmi gegn Katrínu Júlíusdóttur fjármálaráðherra. Hvað kemur til að hann sækist eftir forystu í flokknum?

„Ég vil gefa kost á mér og mínum kröftum til að leiða Samfylkinguna á þessum umbrotatímum. Ég held að flokkurinn og þjóðin þurfi á því að halda að hafa öflugt stjórnmálaafl sem vinnur með fordómalausum hætti á forsendum klassískrar jafnaðarstefnu og berst fyrir raunhæfum lausnum á þeim flóknu viðfangsefnum sem við er að etja.

Þjóðin á mikið undir því að það takist vel til. Við lifum óvissutíma. Fólk upplifir eðlilega vaxandi vonleysi þegar áhrifin af hruninu eru orðin að fullu ljós, laun hafa lækkað og eru ekki að fara að hækka. Lánin hafa hækkað og standa þar föst og skattbyrðin hefur þyngst.

Efnahagslegt sjálfstæði okkar var í stórhættu fyrir nokkrum árum og getur enn brugðið til beggja vona með það. Ríkið er mikið skuldsett og við erum læst í höftum, án fullnægjandi tengsla við hið alþjóðlega umhverfi. Efnahagsmál, atvinnumál og tengsl okkar við aðrar þjóðir verða helstu verkefni næstu ára og ekkert verður leyst ef heildarsýn vantar. Að þessu vil ég vinna.

Við þurfum raunhæfar lausnir en ekki loforðakapphlaup. Við þurfum vöxt í efnahagslífið á sjálfbærum forsendum og góð starfsskilyrði helstu vaxtargreina. Við þurfum að mæta þörf okkar fyrir góða opinbera þjónustu, án tillits til efnahags, og mæta með sanngjörnum hætti kröfum þeirra fjölmennu kvennastétta, sem veita þjónustuna, um bættan starfsaðbúnað og betri kjör. En samt getum við ekki aukið ríkisútgjöld á næstu árum. Við verðum að greiða niður skuldir og búa í haginn fyrir framtíðina.“

Fáfengileg stjórnmál

Árni Páll segir að gríðarlega miklu máli skipti hverjir takist á við þessi flóknu verkefni. Samfylkingin verði að leiða þá vinnu á forsendum hefðbundinnar jafnaðarmennsku. En hefur hann leitt að því hugann lengi að sækjast eftir formennsku í flokknum?

„Nei. Og ákvörðunin réðst af ástæðum sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér þegar ég settist á þing 2007. Reynslan af stjórnmálastarfi í hruninu breytti mér. Fáfengileiki stjórnmálanna sem hefðbundins samkvæmisleiks hefur orðið mér ljósari allt þetta kjörtímabil. Hugmyndin um vegtyllur vegtyllanna vegna hefur orðið mér fjarlægari.

Að sama skapi hefur aukist óþol mitt fyrir meðvirkni og fyrir því að vera með bara til að vera með. Mér finnst þjóð sem hefur gengið í gegnum svona miklar umbreytingar eiga það skilið að fá raunveruleg svör og raunverulegt efnisríkt samtal en ekki loforðaglamur og karp. Alls staðar þar sem ég kem þráir fólk þetta; hreinskilið, innihaldsríkt og opið samtal.

Þess vegna er ég alveg einlægur þegar ég segi: ég vil umboð til að breyta. Ég vil ekki leiða flokkinn sem meðreiðarflokk úreltra og ónýtra stjórnmála.“

Ertu að segja að hann sé það í dag?

„Hann er auðvitað hluti af stjórnmálakerfinu, en það er í okkar valdi að breyta því miklu meira en við höfum gert. Samfylkingin var stofnuð til höfuðs úreltri stjórnmálamenningu og á að vera í fararbroddi opinna og valddreifðra vinnubragða. Við erum stór og fjölbreyttur flokkur og eigum ekki að vera feimin við það heldur nýta kosti fjölbreytninnar.

Valdataumarnir eru þarna og við verðum að þora að taka í þá. Ef við tökum ekki í þá heldur samfélagið bara áfram að þróast án okkar áhrifa. Jafnaðarmenn verða að þora að hafa áhrif á samfélagsþróunina, taka til sín völdin og breyta samfélaginu sjálfir með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Verstu dæmin um afturför í velferðarþjónustu í nágrannalöndum okkar hafa orðið þegar jafnaðarmenn hafa ekki treyst sér til að leiða umbótaferlið sjálfir og leyft hagsmunaaðilum, óheftum markaðsöflum og fulltrúum sérhagsmuna að ráða ferðinni. Veröldin stendur ekki kyrr þó jafnaðarmenn treysti sér ekki til að móta samfélagið. Þá heldur samfélagið bara áfram að þroskast, á öðrum forsendum.

Spurningin er bara þessi: þorum við sem jafnaðarmenn að hasla okkur völlinn, eða ætlum við að halda áfram að halda fallegar ræður og leyfa markaðsöflunum og hagsmunaaðilunum að fara sínu fram.

Jafnaðarmenn um alla Evrópu standa nú eftir fjármálakreppuna frammi fyrir algerlega nýjum veruleika, rétt eins og við. Samfélagið sem við byggðum um alla Evrópu í kjölfar kreppunnar miklu er í upplausn. Það er þýðingarlaust að láta eins og gærdagurinn geti haldið áfram endalaust. Við verðum að svara kröfum nýrra tíma, rétt eins og Héðinn, Vilmundur landlæknir og Haraldur Guðmundsson gerðu svo vel á sinni tíð.“

Vinstri stjórn

Samfylkingin hefur verið í stjórn með Vinstri grænum á þessu kjörtímabili. Hvaða óskir hefur Árni Páll varðandi samstarfsaðila?

„Mér finnst stór jafnaðarmannaflokkur eiga að reyna vinstra samstarf sem fyrsta kost. Staða Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum í dag vekur hins vegar upp verulegar efasemdir um það að hún verði í aðstöðu til þess að leiða ríkisstjórn. Flokkur með 20 prósent mun tæplega leiða nokkra ríkisstjórn, hans bíður bara hækjuhlutverk. Það er því verk að vinna fram að næstu kosningum.

Treystum við okkur til þess að tala við þann mikla fjölda fólks sem bíður eftir stjórnmálaafli með ný vinnubrögð og sterka sýn um hvert skuli halda og er tilbúið til að leggja traust á trúverðugt stjórnmálaafl og nýta afl alls þessa fólks til að mynda breiðfylkingu sem getur skilað árangri fyrir þjóðina í heild? Eða leikum við biðleiki og kjósum frekar ímyndað öryggi fortíðarinnar og kyrrstöðuna, en sættum okkur þá líka við að missa af því sögulega tækifæri að leiða þjóðina áfram á óvissutímum.“

Fordómalaust samtal

Hvernig sér Árni Páll Samfylkinguna þróast, verði hann formaður?

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að hún hafi þrek til þess að nýta þessa miklu styrkleika, að vera þessi fjölbreytta hreyfing og ekki hræðast það eða fela, heldur njóta þess. Samfylkingin á einfaldlega að geta verið sterkari en aðrir flokkar vegna þess að hún býr að mjög fjölbreyttum rótum. Hjá okkur eiga allir að eiga rödd. En til að þetta gerist verður að virða öll sjónarmið og ræða hluti með opnum hætti áður en komist er að niðurstöðu.

Samtal er ekki afsökun fyrir athafnaleysi, heldur nauðsynleg forsenda skynsamlegrar niðurstöðu. Að samtalinu loknu þarf að komast að niðurstöðu, taka ákvarðanir og ég treysti mér til þess. Og ég treysti mér líka til að vinna niðurstöðu Samfylkingarinnar brautargengi í samvinnu við aðra flokka.“

Árni Páll segir að lykilatriði Samfylkingarinnar eigi að vera loforð um fordómalaust samtal. Allt það fjölbreytta fólk sem skipar flokkinn eigi að finna sér þar stað og vera stolt af flokknum.

„Við þurfum ekki forystumann sem snýr baki við þjóðinni, horfir á þingflokkinn og lítur á sig sem sáttasemjara ólíkra hópa í dægurþrasi. Við þurfum forystumann sem treystir sér til að snúa sér að þjóðinni, tala hana á sitt band og fylkja öllum flokknum að baki sér um framtíðarsýn jafnaðarmanna og raunveruleg verkefni á hennar grunni. Af verkunum verðum við dæmd, en ekki orðunum.

Kyrrstaða er ekki valkostur fyrir jafnaðarflokk eins og Samfylkinguna. Okkur er eiginlegt að sækja fram fyrir betra samfélagi, en ekki að verja óbreytt ástand.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×