Innlent

Efni frá lesendum setur svip á útgáfu Fréttablaðsins á aðfangadag í ár: Yfir 250 jólasögur bárust

Lesendur eru hvattir til að senda inn jólalegar myndir.
Lesendur eru hvattir til að senda inn jólalegar myndir. fréttablaðið/vilhelm
„Þátttakan fór langt fram úr vonum,“ segir Steinunn Stefánsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins og formaður dómnefndar í jólasögusamkeppni blaðsins. Yfir 250 sögur bárust í keppnina en skilafrestur rann út 5. desember.

Sögurnar voru í kjölfarið sendar nafnlausar áfram til dómnefndar, sem velur þrjár bestu sögurnar.Sú sem best þykir birtist í Fréttablaðinu á aðfangadag, myndskreytt af Halldóri Baldurssyni. Í dómnefnd sitja auk Steinunnar rithöfundarnir Guðmundur Andri Thorsson og Arndís Þórarinsdóttir.

Sögurnar í keppninni eru af öllu tagi, að sögn Steinunnar. „Margar sögurnar virðast byggja á raunverulegum atburðum; sumir höfundar rifja upp jólahald á árum áður, óvenjulegar aðstæður sem komið hafa upp á jólum eða halda til haga ýmist ljúfum eða sárum minningum tengt hátíðinni. Aðrir gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn.“

Verðlaun verða veitt fyrir þrjár bestu sögurnar. Fyrstu verðlaun eru Intel Pentium-fartölva frá Toshiba, auk þess sem sagan birtist í blaðinu. Verðlaun fyrir annað og þriðja sæti eru United-spjaldtölvur. Sigurlaunin eru frá Tölvulistanum.

Efni frá lesendum setur svip sinn á Fréttablaðið á aðfangadag. Jólamyndasamkeppni blaðsins stendur nú yfir og mun vinningsmyndin prýða forsíðu blaðsins og nokkrar aðrar birtast á jólamyndasíðu. Netfang keppninnar er ljosmyndakeppni@frettabladid.is og frestur til að skila 19. desember. Auk birtingar er bluetooth-hátalari frá Sjónvarpsmarkaðnum og leikhúsmiðar í verðlaun í keppninni. - bs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×