Innlent

Nótin gauðrifnar á hvalsbökum

Myndin gefur hugmynd um stærð veiðarfærisins sem hvalirnir rífa og sjómennirnir þurfa að bæta þegar rifnar.
Myndin gefur hugmynd um stærð veiðarfærisins sem hvalirnir rífa og sjómennirnir þurfa að bæta þegar rifnar. Fréttablaðið/óskar
Hnúfubakavöður hafa gert sjómönnum lífið leitt á loðnumiðunum norður af Vestfjörðum síðustu dagana en sennilega hafa fáir farið jafn illa út úr ágangi hvalanna og áhöfnin á Lundey NS, segir í frétt á vef HB Granda.

„Það er búin að vera óhemju netavinna í þessari veiðiferð. Rifið í svo til hverju kasti og nánast alltaf vegna þess að hvalir höfðu lent í nótinni,“ segir Halldór Jónasson, annar stýrimaður á Lundey. Að sögn Halldórs rifnaði nótin minnst fjórum til fimm sinnum vegna þess að hnúfubakar sem voru að eltast við loðnu lentu inni í henni þegar kastað var. Erfitt er að forðast hvalina því loðnan hefur aðeins gefið sig til á meðan myrkurs nýtur.

„Menn verða ekkert varir við þetta fyrr en nótin er að lokast. Þá heyrir maður blásturinn í hnúfubökunum og síðan láta þeir sig vaða út og rífa allt í hengsli. Ef við vorum svo heppnir að fá ekki hval í nótina þá komu þeir stundum utan á pokann. Sennilega hefur forvitnin ein búið þar að baki,“ sagði Halldór.

Þar sem veðurútlit er slæmt næstu daga hefur verið ákveðið að gera hlé á loðnuveiðum skipa HB Granda fram yfir hátíðar. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×