Innlent

Þrjár stofnanir fá 1,8 milljarða króna

Stofnunin fær styrk til að ráðast í umbótaverkefni.
Stofnunin fær styrk til að ráðast í umbótaverkefni.
Alls munu 1,8 milljarðar króna renna til verkefna á Íslandi á næsta ári í tengslum við landsáætlun IPA, styrkjakerfis ESB en tillögur Íslands í þeim efnum voru nýlega samþykktar af aðildarríkjum ESB.

Á vef utanríkisráðuneytisins segir að þrjú verkefni fái IPA-styrki á næsta ári, en framkvæmdastjórn ESB eigi þó eftir að afgreiða málið og þess sé að vænta í janúar.

Í fyrsta lagi er það stuðningur til Fjármálaeftirlitsins til að ráðast í umbótaverkefni tengt eftirliti með allri fjármálastarfsemi og beinist meðal annars að því að samræma aðferðir og skipulag stofnunarinnar. Þá fær Hagstofan stuðning til að hérlend fyrirtækjatölfræði verði í samræmi við kröfur EES-samningsins og loks fær Tollstjóraembættið stuðning við að byggja upp tölvukerfi sem heldur utan um umflutning á vörum til og frá Íslandi í samræmi við reglur sem eru gildandi á EES-svæðinu, undirbúa upptöku á tölvukerfi tollskrár sem væri sambærilegt við tollskrárkerfi ESB, og samtímis innleiða nýtt þjónustulag í uppbyggingu tölvukerfis Tollstjóra.

Heildarstyrkveitingar til Íslands í gegnum IPA á tímabilinu 2011 til 2013 verða því rúmlega 5,7 milljarðar króna samtals.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×