Innlent

Borgin og OR fjalla um 950 milljóna kaup

Allt stefnir í myndarlega fjárfestingu í náttúruminjasýningu í Perlunni.
Allt stefnir í myndarlega fjárfestingu í náttúruminjasýningu í Perlunni. Fréttablaðið/pjetur
Borgarráð samþykkti í gær að vísa tillögu um kaup Reykjavíkurborgar á Perlunni af Orkuveitu Reykjavíkur (OR) til afgreiðslu borgarstjórnar á þriðjudag. Sama tillaga liggur fyrir stjórnarfundi OR í dag. Kaupverðið er 950 milljónir króna.

Þá eru viðræður á milli borgaryfirvalda og menntamálaráðuneytis hafnar, en þar er rætt um leigu á hluta hússins fyrir náttúruminjasafn. Þeir samningar eru ein forsenda kaupa borgarinnar á Perlunni, en meirihluti fjárlaganefndar Alþingis lagði til á miðvikudag að 400 milljónum króna yrði varið í verkefnið.

Ríki og borg skipuðu í ágúst starfshóp til að skoða möguleika á því að koma upp náttúruminjasafni eða sýningu á vegum NMÍ í Perlunni. Hópurinn setti fram hugmynd um að þar yrði sett upp náttúruminjasýning.

Að mati hópsins er nauðsynlegt að smíða millihæð til að hugmyndin um sýningu gangi upp. Auk þess vill hann að einn eða fleiri tankar yrðu hluti sýningarrýmis til lengri tíma. Perlan er þó ekki talin henta til lengri tíma fyrir safnið án viðbygginga.

Í tillögu Jóns Gnarr borgarstjóra um kaup borgarinnar á húsinu er gert ráð fyrir að ríkið leigi húsið í allt að 15 ár og komi þar upp sýningu. Að auki verður borginni heimilað að gera breytingar á Perlunni fyrir allt að 100 milljónir króna gangi samningar við ríkið eftir. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×