Innlent

Dánarorsök ókunn tæpu ári eftir andlát

Enginn sérfræðingur í réttarmeinafræði er starfandi á Landspítalanum svo kalla þarf til erlenda sérfræðinga til að sinna þeim málum sem upp koma.
Fréttablaðið/Vilhelm
Enginn sérfræðingur í réttarmeinafræði er starfandi á Landspítalanum svo kalla þarf til erlenda sérfræðinga til að sinna þeim málum sem upp koma. Fréttablaðið/Vilhelm
Dæmi er um að aðstandendur þurfi að bíða í rúmlega tíu mánuði eftir að fá niðurstöður um dánarorsök eftir krufningu hjá Landspítalanum. Enn á eftir að rannsaka dánarorsök um 50 einstaklinga sem létust á árinu.

Tíu mánuðir eru liðnir frá því að eiginkona Viðars Gíslasonar varð bráðkvödd en enn hefur hann ekki fengið að vita dánarorsökina. "Þetta hvílir mjög þungt á mér og öðrum aðstandendum. Það er óþægilegt fyrir okkur að fara í kirkjugarðinn og tala við konuna mína og vita ekki úr hverju hún dó. Fólk skilur þetta kannski ekki nema hafa lent í þessu sjálft," segir Viðar.

Honum var upphaflega sagt að tvo til þrjá mánuði tæki að fá skorið úr um dánarorsök konunnar í kjölfar krufningar, en hefur enn engin svör fengið. Hann segist ítrekað hafa kannað stöðu málsins hjá Landspítalanum.

"Ég er ekki kominn yfir reiðina, sérstaklega eftir að ég frétti í lok september að krabbameinsfrumur hefðu fundist í maganum á henni. Hún fór í gegnum fjölda læknisrannsókna síðustu ár og í þeim kom aldrei neitt tengt krabbameini fram," segir Viðar.

"Ef hún er búin að fara í allar þessar rannsóknir og ekkert hefur fundist en svo finnst krabbamein núna þegar hún er krufin hlýtur sú spurning að vakna hversu lengi það hefur verið þarna."

Um það bil fimmtíu rannsóknum á einstaklingum sem látist hafa á árinu er ólokið," segir Bjarni A. Agnarsson, yfirlæknir á rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítalanum.

Enginn sérfræðingur í réttarmeinafræði hefur verið starfandi við spítalann síðustu ár. Aðeins einn íslenskur læknir með þá sérhæfingu er starfandi í dag, en hann flutti af landi brott fyrir nokkrum árum. Landspítalinn hefur því fengið erlenda sérfræðinga til að koma hingað reglulega og sinna þeim verkefnum sem til falla.

"Þetta leiðir til þess að málin tefjast. Þetta er ástand sem við erum ekki ánægðir með en svona er þetta," segir Bjarni. "Helst vildi ég að öll mál kláruðust á eðlilegum tíma, tveimur til þremur mánuðum, en við höfum ekki náð því eins og staðan er."- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×