Innlent

Íbúar sannfærðir um að kveikt hafi verið í

Sunna skrifar
Slökkviliðsmenn reistu stiga við húsið svo að maðurinn, sem var í íbúð á þriðju hæð, gat komist út um glugga og niður. fréttablaðið/kristján
Slökkviliðsmenn reistu stiga við húsið svo að maðurinn, sem var í íbúð á þriðju hæð, gat komist út um glugga og niður. fréttablaðið/kristján
Íbúar við Laugaveg 51 auk eiganda verslunar þar segja íkveikju það eina sem komi til greina þegar eldur braust út í mannlausri íbúð á annarri hæð hússins upp úr hádegi í gær. Ekkert rafmagn hefur verið á íbúðinni í nokkra mánuði.

Allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað til þegar vegfarendur sáu mikinn reyk stíga út um glugga húsnæðisins. Manni var bjargað við illan leik út um glugga á þriðju hæð og var hann fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Allt húsið er mikið skemmt af reyk.

Verslunin Manía er á jarðhæð hússins og urðu miklar skemmdir á henni af völdum vatns og reyks. María Birta Bjarnadóttir, eigandi verslunarinnar, segir enga skýringu geta fundið á eldsupptökum aðra en íkveikju.

„Það er ekkert annað sem kemur til greina. Íbúðin hefur verið mannlaus í svo langan tíma. Það er ekki einu sinni rafmagn á henni,“ segir hún. Að hennar sögn eru einungis tveir sófar, borð og eitt rúm inni í íbúðinni, en hún fór þangað inn fyrir nokkrum dögum. Hún hefur enga hugmynd um hver gæti verið þar að verki.

Starfsfólk Maníu var í óða önn í gær að bjarga verðmætum í gær. Stórt gat var gert í loftið til að hleypa vatni niður og mikla reykjarlykt lagði um allt rýmið. Óvíst er hvenær verslunin opnar á ný, en María er tryggð fyrir tjóninu.

Friðrik Guðmundsson, íbúi á efstu hæð hússins, er sammála Maríu um að ekkert annað komi til greina en að kveikt hafi verið í. „Þetta var íkveikja. Það er ekkert rafmagn á íbúðinni og fólk hefur verið að valsa þarna út og inn í langan tíma. Alls konar fólk og margir með lykla,“ segir hann. „Ég er búinn að berjast gegn því frá árinu 2005 að það sé búið í þessu skrifstofuhúsnæði sem uppfyllir engin lagaleg skilyrði um slíkt. Ég hef verið í samskiptum við byggingafulltrúa borgarinnar í fjölda ára varðandi þetta, en hann hefur aldrei gert neitt í málinu. Svo endar þetta svona.“

Fleiri íbúar sem Fréttablaðið ræddi við voru á sömu skoðun og Friðrik og María. Slökkviliðsmenn á svæðinu vildu þó ekki taka undir grunsemdir íbúanna, en sögðu málið fara í rannsókn til lögreglu sem myndi skera úr um eldsupptök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×