Innlent

Leysa á launadeilu innanhúss hjá LSH

LSH Gangi í gegn uppsagnir 250 hjúkrunarfræðinga við Landspítalann blasir við að starfsemi spítalans lamist að hluta.
LSH Gangi í gegn uppsagnir 250 hjúkrunarfræðinga við Landspítalann blasir við að starfsemi spítalans lamist að hluta. Fréttablaðið/Vilhelm
Reynt verður að koma til móts við kröfur hjúkrunarfræðinga um úrbætur á stofnanasamningi við Landspítalann, án viðbótarfjárveitingar frá ríkinu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa starfsmenn fjármálaráðuneytisins verið stjórnendum Landspítalans innan handar við að greina hvernig nýta á svigrúm, sem myndast hefur í ár við að dregið hafi verið úr aðhaldskröfum á spítalann, til þess að endurskoða stofnanasamning við hjúkrunarfræðinga.

Sú endurskoðun eigi svo einnig að ná til annarra stétta háskólamenntaðra starfsmanna sem telja sig í svipaðri stöðu og hjúkrunarfræðingar. Í þeim hópi munu vera bæði lífeindafræðingar og geislafræðingar.

Leiðrétting sem ná mætti fram með þessum hætti yrði hins vegar bara tímabundin aðgerð fram að næstu kjarasamningum, en þeir eru í gildi út næsta ár hjá hjúkrunarfræðingum. Skiptar skoðanir eru um það meðal hjúkrunarfræðinga hvort láta eigi af sérstökum stofnanasamningum, en þá myndu kjör þeirra einvörðungu ráðast af kjarasamningi.

Við endurskoðun á stofnanasamningi við hjúkrunarfræðinga yrði horft til þeirrar hagræðingar sem náðst hefur fram á spítalanum með breytingum á dagdeildaþjónustu og fleiri þáttum. Reyna á að beina inn í þá vinnu öllu því svigrúmi sem hægt sé á spítalanum, með endurskoðun og frestun á öðrum framkvæmdum. Samkvæmt heimildum blaðsins er horft til þess að bæta megi Landspítalanum upp hluta þeirra tilfæringa með auknum fjárframlögum síðar.

Hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum óskuðu í janúar á þessu ári eftir endurskoðun á stofnanasamningi við spítalann, en fengu þau svör að ekki væri fjármagn til breytinga.

Samkvæmt heimildum blaðsins standa vonir til þess að eftir yfirlegu á áætlunum spítalans geti viðræður stjórnenda spítalans við fulltrúa hjúkrunarfræðinga um breytingar á stofnanasamningnum gengið tiltölulega hratt fyrir sig. Spítalinn muni nú reyna að teygja sig og nýta fyrirliggjandi fjárheimildir til að bæta starfsfólki upp álag, en það sé gert í framhaldi af vinnu sem hafi verið farið í eftir að óskað var eftir endurskoðun stofnanasamningsins í byrjun ársins.

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×