Innlent

Nefnd gegn skítkasti og níði í bæjarstjórn

Karen E. Halldórsdóttir
Karen E. Halldórsdóttir
„Við viljum alls ekki hefta að fólk tjái sig en það voru allir sammála um að þetta væri gengið það langt að það yrði að gera breytingar,“ segir Karen E. Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi og annar tveggja meðlima nefndar sem bæta á úr ófremdarástandi í bæjarstjórninni.

Eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu eru hörð átök milli einstakra fulltrúa á bæjarstjórnarfundum í Kópavogi. Þær erjur eiga sér margra ára forsögu. Var svo komið í mars síðastliðnum að Hafsteinn Karlsson úr Samfylkingu lagði til í bæjarráði að stofnaður yrði vinnuhópur til að gera tillögur um vinnulag bæjarstjórnar. Sá bragur sem ríkt hefði um langa hríð í bæjarstjórninni væri til vansæmdar fyrir Kópavog.

„Oft á tíðum líður málefnaleg umræða á bæjarstjórnarfundum og í fjölmiðlum fyrir persónulegt skítkast, brigslyrði, dylgjur og tilhæfulausar ásakanir. Óeining er um hvernig á að haga afgreiðslu mála og mikill tími fer í þras um slíkt,“ sagði Hafsteinn í bókun og kallaði ástandið ómenningu.

Hafsteinn er úr minnihlutanum en fulltrúar meirihlutans í bæjarráði sögðust taka heilshugar undir tillögu hans. „Persónuleg umræða hefur verið til skammar og óþurftar fyrir bæjarbúa Kópavogs. Núverandi bæjarstjóri hefur meðal annars farið í pontu á bæjarstjórnarfundi og beðið menn þess sama og hér kemur fram. Fyrsta skrefið myndi vera að taka til í eigin ranni,“ sögðu þau Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri úr Sjálfstæðisflokki, Rannveig Ásgeirsdóttir, formaður bæjarráðs af Lista Kópavogsbúa og Ómar Stefánsson, varaformaður bæjarráðs úr Framsóknarflokki.

Ásamt Karen, sem er úr Sjálfstæðisflokki, var Pétur Ólafsson, bæjarfulltrúi úr Samfylkingu, skipaður í starfshópinn í apríl. Karen segir þau nú tilbúin með tillögu um breytingar á fundarsköpum annars vegar og tillögu um sérstaka forsætisnefnd hins vegar.

„Forsætisnefnd gæti reynst vel til að leysa ágreining áður en farið er með hann inn á fund þannig að bæjarstjórnarfundir yrðu markvissari og efnislegri,“ segir Karen, sem kveður slíka forsætisnefnd einnig mundu hafa það hlutverk að greina bæjarstjórnarfundi eftir á.

„Nefndin gæti til dæmis tekið fund eins og þennan síðasta bæjarstjórnarfund, sem fór greinilega úr skorðum, og reynt að meta hvað fór úrskeiðis og jafnvel sest niður með viðkomandi bæjarfulltrúum. Við viljum stýra umræðunni frá persónulegum árásum og draga fram efnislegan ágreining,“ segir Karen, sem kveður þau Pétur einhuga í málinu. „Það þarf að leysa þessi mál öðruvísi en í beinni útsendingu á bæjarstjórnarfundum þannig að bæjarbúar séu á hlusta málefni bæjarbúa en ekki persónuleg málefni bæjarfulltrúa.“

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×