Innlent

Fleiri kaupa beint frá býli

Bændum sem kjósa að selja unnar vörur beint frá býli í stað þess að selja eingöngu hráefni hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum og sífellt meira magn af heimaunnum vörum rennur ofan í landann.

„Magnið af vörum sem er að koma inn á markaðinn eykst jafnt og þétt og störfunum sem þetta skapar fjölgar að sama skapi,“ segir Guðmundur Jón Guðmundson, formaður félagsins Beint frá býli. Félagið vinnur að hagsmunum bænda sem stunda framleiðslu og sölu á hvers konar heimaunnum afurðum.

„Síðustu þrjú árin hefur félagatalan verið nokkuð stöðug, við höfum verið með um það bil 100 félaga. Það sem hefur gerst er að þeim hefur fækkað sem eru bara meðlimir í félaginu en framleiða ekki neitt, en fjölgað á móti þeim sem eru að framleiða,“ segir Guðmundur Jón Guðmundsson

Hann segir erfitt að meta nákvæmlega hversu mikil söluaukning hafi orðið frá því félagið tók til starfa í lok febrúar 2008. „Félagið heldur ekki utan um sölutölur einstakra félagsmanna en eftir því sem mér skilst eru menn yfirleitt heldur að bæta í, og ég veit um verulega aukningu hjá sumum,“ segir Guðmundur.

Hann segir eftirspurnina sannarlega vera til staðar, og margir nái ekki að anna eftirspurninni eftir vörum. „Ég hef sjálfur verið að bauka við að gera skyr, og ég gæti selt allt það skyr sem við gætum framleitt.“

Guðmundur segir það talsvert stökk fyrir bændur að fara frá því að vera hráefnisframleiðendur í það að selja tilbúna vöru. Til dæmis verði að huga að því að vera með stöðugt framboð, sem sé miserfitt eftir því hver söluvaran sé. „Menn þurfa að tileinka sér allt aðra siði.“

Flestir bændur sem selja afurðir beint frá býli framleiða lambakjöt, en nautakjötið er einnig vinsæl vara. „Eftirspurnin eftir nautakjöti er jafnt og þétt allt árið, en lambakjötið virðist seljast meira á haustin og fram eftir vetri. Ís, skyr og aðrar mjólkurafurðir seljast jafnt og þétt allt árið,“ segir Guðmundur. Nokkrir selja svína- eða hrossakjöt og einhverjir selja egg.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×