Innlent

Blaðburðarbílar fastir á Blönduósi en stefnt á flug norður í dag

Mynd/Jóhannes Viktorsson
Vegna óveðursins komst Fréttablaðið aldrei lengra norður en til Blönduóss í gær, en vonast er til þess að hægt verði að fljúga með blaðið til Akureyrar í dag.

„Bílar, bæði okkar og Morgunblaðsins, sem fóru norður í gær sitja fastir á Blönduósi," segir Hannes Hannesson, framkvæmdastjóri Póstdreifingar, sem sér um dreifinguna á Fréttablaðinu.

„Fyrir sunnan gekk þetta hins vegar allt upp, en það var víða mjög hvasst og ég veit að á morgum heimilum greip fullorðna fólkið inn í og hjálpaði til. Það var varla stætt á sumum svæðum, eins og á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbænum."

Margir lesendur sáu reyndar ástæðu til að hrósa blaðberum sérstaklega fyrir hafa látið sig hafa það að brjótast í gegnum veðurofsann með Fréttablaðið í gærmorgun.

Lesandi Fréttablaðsins í Áshverfi í Mosfellsbæ benti til að mynda á að blaðberinn þar hafi að vanda verið mættur rétt í kringum sjö að morgni þrátt fyrir að ekki væri stætt í götunni.

Hannes segir reyndar ástæðu til að minna fólk sérstaklega á að huga almennt að aðgengi fyrir blaðbera að húsum, nú þegar vetrarmykrið er komið og von á snjó og hálku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×