Skoðun

Aukið frjálsræði og afnám viðskiptahindrana

Bjarni Már Gylfason skrifar
Innri markaður Evrópu á 20 ára afmæli um þessar mundir. Árið 1993 varð Ísland fullgildur aðili að markaðnum með EES-samningum. Aðild Íslands var umdeild á sínum tíma og þótti mörgum víst að hún fæli í sér talsvert afsal fullveldis og að margvísleg atvinnustarfsemi á Íslandi yrði undir í frjálsri samkeppni á vissum sviðum. Það reyndist rétt að nokkru leyti. Á móti kemur að þær breytingar sem orðið hafa á síðastliðnum tveimur áratugum hafa gjörbreytt íslensku viðskiptaumhverfi til hins betra og við orðið samkeppnishæfari á nýjum sviðum.

Þrátt fyrir djúpa efnahagskreppu á Íslandi síðustu árin er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að árlegur hagvöxtur hefur verið tæp 3% frá því Ísland tengdist innri markaðnum. Aukinn útflutningur og alþjóðavæðing, fjölbreyttara atvinnulíf og efnahagslegar framfarir er ekki síst að þakka þeirri umgjörð sem aðild að innri markaði Evrópu hefur fært okkur. Tilvist innri markaðarins hefur raunar breytt því hvernig viðskipti eiga sér stað, hvernig ferðalögum og námi er háttað og hvernig margvísleg löggjöf er innleidd.

Fyrir aðild skuldbindum við okkur nefnilega til að taka upp alla löggjöf ESB sem varðar innri markaðinn fyrir utan sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Þetta þýðir að viðskiptaumhverfi okkar er að mestu leyti það sama og hjá helstu viðskiptavinum og keppinautum okkar. Þetta kallar á visst valdaframsal en á móti fáum við aðgang að vandaðri lagasetningu en við sjálf hefðum ráðrúm til að hanna.

Í raun má segja að með aðgangi að innri markaðnum hafi eitt stærsta viðskiptatækifæri okkar fram að þessu verið opnað. Erfitt er að ímynda sér íslenskt atvinnulíf í dag ef við værum ekki að starfa í sömu umgjörð og löndin í kringum okkur. Innri markaðurinn felur í sér að viðskipti með vörur og þjónustu, fjármagn og flutningur fólks er frjáls í 27 aðildarríkjum svæðisins þar sem um 500 milljónir manna búa og 23 milljónir fyrirtækja eru starfrækt. Þrátt fyrir þetta eru miklar áskoranir fram undan. Hætt er við að innri markaðurinn sjálfur verði fórnarlamb kreppunnar sem nú ríkir enda þekkt að viðbrögð sumra ríkja við kreppu eru að draga saman seglin og byggja varnarmúra í kringum sig. En það mun ekki skila neinum árangri fyrir íbúa svæðisins í heild sinni enda mun hvers kyns verndarstefna og einangrun draga úr umsvifum efnahagslífsins.

Aukið frjálsræði og flæði í viðskiptum samhliða afnámi óæskilegra viðskiptahindrana er ævinlega uppskrift að aukinni hagsæld. Af þessum sökum felst leið Evrópu út úr kreppunni m.a. í að styrkja enn frekar innri markaðinn sem nú fagnar 20 ára afmæli sínu.




Skoðun

Sjá meira


×