Erlent

Hafa auðveldað lyfjaþróun

GB skrifar
Nýbakaður Nóbelsverðlaunahafinn fékk góðar viðtökur þegar hann mætti til vinnu í gær.
nordicphotos/AFP
Nýbakaður Nóbelsverðlaunahafinn fékk góðar viðtökur þegar hann mætti til vinnu í gær. nordicphotos/AFP
Tveir bandarískir vísindamenn fá Nóbelsverðlaunin í efnafræði þetta árið fyrir rannsóknir sínar á prótínviðtökum, sem gera frumum líkamans kleift að skynja og bregðast við merkjum að utan, svo sem merkjum um hættu eða tiltekið bragð eða lykt.

Sænska Nóbelsnefndin skýrði frá þessu í gær, og sagði rannsóknir þeirra Roberts Lefkowitz og Brians Kobilka á níunda áratugnum hafa markað tímamót. Þær hefðu ekki síst komið að góðu gagni við þróun lyfja af ýmsu tagi. Um það bil helmingur allra lyfja er byggður á virkni þessara viðtaka, sem nefndir eru G-prótíntengdir viðtakar. Í mannslíkamanum eru um þúsund tegundir þessara viðtaka, meðal annars í nefi, tungu og augum.

Á þriðjudag skýrði sænska Nóbelsnefndin frá því að tveir franskir vísindamenn, Serge Haroche og David Wineland, fengju verðlaunin í eðlisfræði fyrir rannsóknir þeirra í skammtafræði.

Í dag verður tilkynnt um verðlaunahafann í bókmenntum þetta árið. Nóbelsverðlaunin verða að venju afhent í Stokkhólmi hinn 10. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×