Fótbolti

Lét viskuna ráða að þessu sinni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron hefur verið sjóðheitur í danska boltanum og er markahæstur í dönsku deildinni með tólf mörk í tólf leikjum.fréttablaðið/anton
Aron hefur verið sjóðheitur í danska boltanum og er markahæstur í dönsku deildinni með tólf mörk í tólf leikjum.fréttablaðið/anton
Markamaskína AGF, Aron Jóhannsson, mun ekki fá tækifæri til þess að spila sinn fyrsta landsleik fyrir Ísland í komandi leikjum í undankeppni HM. Hann dró sig úr hópnum í gær þar sem hann er að glíma við meiðsli í nára.

„Nárinn er mjög slæmur og mér var meinað að fara til móts við landsliðið sem er hundleiðinlegt," sagði Aron svekktur þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær.

„Ég er ungur og vitlaus. Ef þetta hefði verið alfarið mín ákvörðun þá hefði ég farið til Íslands og það hefði gert nárann verri og ég frá í mánuð eða álíka. Ég lét viskuna ráða að þessu sinni og hlustaði á sjúkraþjálfarann að þessu sinni. Ég verð á bekknum hjá honum næstu daga í stað þess að æfa með landsliðinu."

Nárinn hefur verið að plaga Aron í þrjár vikur og hann sama sem ekkert æft. Hann hefur aðeins spilað en varð svo að fara að velli um helgina vegna meiðslanna.

„Ég fékk smá í nárann og þá var ég tekinn af velli. Menn vildu ekki taka áhættu og svo var ákveðið í kjölfarið að ég færi ekki til móts við landsliðið. Ég er mun verri í dag en ég var eftir leikinn. Það verður því eitthvað að vinna í meiðslunum."

Aron er markahæstur í dönsku deildinni með tólf mörk í tólf leikjum og biðu margir spenntir eftir því að sjá hann með landsliðinu.

„Þetta er virkilega fúlt enda í fyrsta skipti sem ég er valinn í landsliðið. Mér líður illa yfir þessu. Vonandi var þetta ekki í síðasta skipti sem ég verð valinn í landsliðið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×