Innlent

Kortleggja jarðhita í 13 löndum Afríku

Jarðvarmi hefur aðeins verið virkjaður í Keníu af öllum löndum Afríku. Gríðarlegir möguleikar á raforkuframleiðslu eru í Sigdalnum mikla í Austur-Afríku, en dalurinn er í raun risavaxið misgengi á plötuskilum jarðskorpunnar. nordicphotos/afp
Jarðvarmi hefur aðeins verið virkjaður í Keníu af öllum löndum Afríku. Gríðarlegir möguleikar á raforkuframleiðslu eru í Sigdalnum mikla í Austur-Afríku, en dalurinn er í raun risavaxið misgengi á plötuskilum jarðskorpunnar. nordicphotos/afp Nordicphotos/AFP
Íslendingar hafa tryggt fjármagn til að hefja rannsóknir og kortlagningu á miklum jarðhitalindum í þrettán löndum í Austur-Afríku. Þetta kom fram í ávarpi Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra fyrir allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á dögunum.

Verkefnið á að geta veitt allt að 150 milljónum Afríkubúa aðgang að hreinni og endurnýjanlegri orku. „Aðgengi að orku snertir flesta þætti samfélagsins og daglegs lífs og aukinn aðgangur fólks að rafmagni er mikilvægur hluti þess að vinna að framgangi þúsaldarmarkmiðanna,“ segir Engilbert Guðmundsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ).

ÞSSÍ og Norræni þróunarsjóðurinn hafa hleypt verkefni af stokkunum sem miðar að jarðhitaleit, rannsóknum og mannauðsuppbyggingu í löndunum þrettán. Markmiðið er að í lok verkefnisins hafi löndin skýra hugmynd um möguleika á sviði jarðhita, auk getu og mannauðs til að framleiða rafmagn.

Áhersla er lögð á að orkuþörf þróunarríkja verði mætt með endurnýjanlegum og hreinum orkugjöfum í stað brennslu jarðefna. Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, fer fyrir átaki um sjálfbæra orku í heiminum. Markmið átaksins er að árið 2030 verði hlutur endurnýjanlegrar orku tvöfaldur frá því sem hann er í dag. Íslenska verkefnið er til að leggja lóð á þær vogarskálar.

Norræni þróunarsjóðurinn leggur fram fimm milljónir evra til verkefnisins og ÞSSÍ sömu fjárhæð á fimm ára tímabili.

Íslensk sérþekking á sviði jarðhita mun spila stórt hlutverk í framkvæmd verkefnisins, að sögn Davíðs Bjarnasonar, verkefnastjóra hjá ÞSSÍ. Mikil óvissa sé samt samhliða jarðhitaleit og því aðeins vænst að jákvæðar niðurstöður fáist í sex til sjö löndum.

birgirh@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×