Innlent

Svarta keilan tákn um ofbeldi á helgum stað

Staðsetning listaverks Santiagos Sierra um borgaralega óhlýðni á Austurvelli vekur hörð viðbrögð hjá Alþingi og minnihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur.Samsett mynd
Staðsetning listaverks Santiagos Sierra um borgaralega óhlýðni á Austurvelli vekur hörð viðbrögð hjá Alþingi og minnihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur.Samsett mynd
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar sem saman mynda meirihluta borgarstjórnar samþykktu á þriðjudag að útilistaverkið Svarta keilan yrði á suðvesturhorni Austurvallar eins og safnstjóri Listasafns Reykjavíkur lagði til.

Listamaðurinn Santiago Sierra gaf borginni Svörtu keiluna með því skilyrði að það stæði á Austurvelli. Verkið, sem er innblásið af búsáhaldabyltingunni, er sagt vera minnismerki um borgaralega óhlýðni.

Alþingi hefur lýst eindreginni andstöðu við staðsetningu Svörtu keilunnar á Austurvelli. Minnihlutinn í borgarstjórn er á sömu línu. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir verkið tengjast óeirðum veturinn 2008 til 2009. Þó að flestir sem hafi mótmælt við Alþingishúsið á þeim tíma hafi gert það með friðsamlegum hætti hafi ofbeldi verið beitt og lögregluþjónar særðir.

„Þó í kannski ekki miklum mæli hafi verið – og í rauninni með hótunum um ofbeldi – þá var löglega kjörin ríkisstjórn hrakin frá völdum,“ segir Kjartan, sem kveðst vona að slíkir atburðir endurtaki sig aldrei. „Mér finnst í rauninni bara síst ástæða til að minnast þess með einhverju sérstöku minnismerki. Að minnsta kosti hefði mátt finna því annan stað; það hefði ekki átt að vera sett niður á þessum helga stað þjóðarinnar.“

Sóley Tómasdóttir úr Vinstri grænum sagði á borgarstjórnarfundinum á þriðjudag að jákvætt væri að tengja saman list og borgaralega óhlýðni, sem væri nauðsynleg.

„Það verk sem nú stendur til að staðsetja á Austurvelli getur þó ekki talist hentugt til þessa, enda er þannig verið að hampa listamanni sem hefur markvisst leikið sér í krafti sterkrar efnahagslegrar og samfélagslegrar stöðu að mörkum sjálfsvirðingar hjá fólki sem ekki er í stöðu til að afþakka smánarleg tilboð hans um niðurlægingu gegn gjaldi,“ bókaði Sóley. Kjartan tekur undir þetta:

„Hann var að kaupa ógæfusama einstaklinga og vændiskonur til þess að húðflúra á bakið á þeim. Mér finnst það nánast vera mannréttindabrot í sjálfu sér hvernig hann kemur fram við fólk. Mér finnst það ekki viðeigandi að listaverk sem fer á mest áberandi og einhvern helgasta stað þjóðarinnar eigi að vera unnið með þeim hætti.“

Kosið verður til borgarstjórnar að nýju næsta vor. Spurður hvort hugsanlegur nýr meirihluti myndi fjarlægja listaverkið segir Kjartan ekki hægt að segja til um það núna. „Þetta er ákveðin niðurstaða og síðan er að sjá hvernig þetta kemur út.“

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×