Innlent

Vilja minna veitt af makrílnum

ICES leggur til fimmtán prósent minni veiði á makríl árið 2013.
ICES leggur til fimmtán prósent minni veiði á makríl árið 2013. fréttablaðið/óskar
Alþjóðahafrannsóknaráðið ICES, leggur til 15,2% samdrátt í veiðum á makríl árið 2013, umtalsverða aukningu í veiðum á kolmunna og mikinn samdrátt í veiðum á norsk-íslenskri síld. Þetta kemur fram í ráðgjöf stofnunarinnar sem birt var í gær.

„Ég tel að endurskoða þurfi mat Alþjóðahafrannsóknaráðsins á makrílstofninum og taka tillit til þess að um árabil fölsuðu ýmsar Evrópusambandsþjóðir og Norðmenn aflatölur gróflega. Það hefur mikil áhrif á stofnmatið og ég tel óhætt að fullyrða að um verulegt vanmat sé að ræða,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, á vef sambandsins.

Lagt er til að makrílveiðar verði á bilinu 497 til 542 þúsund tonn árið 2013 á móti 586 til 639 þúsund tonnum sem ráðlögð voru í fyrra.

Hins vegar er lögð til 64,4% aukning í veiðum á kolmunna eða úr 391 þúsund tonnum í 643 þúsund tonn árið 2013.

Friðrik segir að kolmunnastofninn sé að ná sér vel á strik en því miður hafi nýliðun í norsk-íslenska síldarstofninum verið mjög slök á síðustu árum og hann á hraðri niðurleið. Ef stuðst verður við samninga um nýtingaráætlun verður heimilt að veiða 619 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld árið 2013, sem er 25,7% samdráttur frá því í fyrra þegar ráðgjöfin hljóðaði upp á 833 þúsund tonn.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×